- Advertisement -

Börnum úthýst sökum fátæktar foreldra

Verklagsreglur borgarinnar eiga að miða að því að börn verði ekki af nauðsynlegri grunnþjónustu vegna erfiðrar fjárhagsstöðu eða skuldavanda foreldra.

Sanna Magdalena Mörtudóttir:

„Lokað var fyrir rafmagn hjá átta einstaklingum hjá Orkuveitu Reykjavíkur og 39 voru í uppsagnarferli hjá skóla- og frístundasviði í sumar og höfðu frest til 1. ágúst til að ganga frá greiðslu eða semja um vanskil. Þetta kemur fram í svarbréfi við fyrirspurn sósíalista um fjölda þeirra sem ekki njóta þjónustu frá Reykjavíkurborg eða fyrirtækja í hennar eigu vegna vanskila,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.

„Samkvæmt reglum frístundaheimila og leikskóla er þjónustu sagt upp vegna vanskila en einnig geta ný börn ekki fengið þjónustu ef umsækjandi og skráður greiðandi hefur ekki greitt eða samið um vanskilin. Ekki eru til tölur um sumarfrístund þ.e. hversu mörg börn hafi ekki fengið þjónustu það sem af er sumarstarfi vegna vanskila. Nokkrir greiðendur hafi greitt vanskil eða gert samninga um vanskil svo að börn þeirra kæmist inn á sumarnámskeið,“ segir Sanna Magdalena.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hún bætir við:

Foreldrar sjö barna fengu ítrekun á uppsögn.

„Núverandi staða samkvæmt svarbréfi er þannig að foreldrar/forráðamenn átta barna sem hafa fengið boð um leikskólavistun í haust þurfa að ganga frá vanskilum leikskólagjalda eða semja um þau svo að barnið fái notið þjónustunnar. Einnig fengu foreldrar sjö barna ítrekun á uppsögn og í þeim tilfellum höfðu foreldrar frest til næstu mánaðamóta til að ganga frá vanskilum.

Verklagsreglur borgarinnar eiga að miða að því að börn verði ekki af nauðsynlegri grunnþjónustu vegna erfiðrar fjárhagsstöðu eða skuldavanda foreldra/forsjáraðila. Í þeim reglum kemur fram að leitað sé leiða til að vinna með foreldrum/forsjáraðilum en mér þykir það gjörsamlega fráleitt að það sé á endanum hægt að neita barni um þjónustu vegna skulda foreldra,“ skrifar Sanna Magdalena.

Í svarbréfinu kemur fram að vegna aðstæðna hafi skóla- og frístundasvið ekki sent út uppsagnir í mars, apríl og maí sl. Þá er einnig bent á að samkvæmt hinum nýju tímabundnu innheimtureglum Reykjavíkurborgar er hægt að sækja um allt að þriggja mánaða gjaldfrest á hvaða þjónustugjöldum sem er innan Reykjavíkurborgar.

„Af því tilefni lagði ég því fram eftirfarandi framhaldfyrirspurnir:

Í svarbréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs vegna fjölda þeirra sem ekki njóta þjónustu frá Reykjavíkurborg eða fyrirtækja í eigu hennar vegna vanskila kemur fram að þann 22. júní sl. voru 39 í uppsagnarferli, samkvæmt skóla- og frístundasviði, og höfðu frest til 1. ágúst sl. til að ganga frá greiðslu eða semja um vanskil. Í svarbréfinu er einnig tekið fram að samkvæmt hinum nýju tímabundnu innheimtureglum Reykjavíkurborgar er hægt að sækja um allt að þriggja mánaða gjaldfrest á hvaða þjónustugjöldum sem er hjá Reykjavíkurborg.

Hefði verið hægt að setja þann gjaldfrest á skuldir aðila hjá skóla- og frístundasviði? Var það gert, eða hefði það þurft að eiga sér stað áður en skuldin var komin í innheimtuferli? Hefði ekki verið hægt að bæta þessum gjaldfresti aftan við skuldina svo að hún færi ekki í vanskil eða var slíkt kannski gert í einhverjum tilfellum?“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: