- Advertisement -

Eflingarkonan: Getur ekki fórnað meiru

Sólveig Anna Jónsdóttir:

Enda er Eflingar-konan láglaunakona, ekki hálaunakona. Hún er verkakona, vinnukona, „hlýddu og borgaðu“ kona. Og það á hún að vera alla sína ævi, alla sína stritandi verkakonu-ævi.

Saga úr lífi Eflingar-konu:

Fullorðin kona, aðflutt. Búsett lengi á Íslandi. Uppfyllir öll skilyrði um „góða“ innflytjandann; talar frábæra íslensku og vinnur fulla vinnu sem ómissandi starfskraftur í umönnunarstarfi. Er einstæð móðir. Föst á leigumarkaði. Búin að fá tilkynningu um að leigan hækki um að allt að 30% næstu mánaðarmót. Hún getur ekki annað en „borgað og hlýtt“. Hún getur ekki lagt fyrir og möguleikar hennar um að komast í eigin íbúð verða minni og minni við hver mánaðarmót. Þó að hún standi í skilum við leigusala og sýni fram á að hún geri allt til að tryggja sér og sínum þak yfir höfuðið á hún ekki séns á því að komast í gegnum greiðslumat. Þrátt fyrir að 70% af ráðstöfunartekjum hennar fari í að greiða leigu. Þrátt fyrir að vera góður og gegn þjóðfélagsþegn, ein af þeim sem að íslenskt samfélag þarf á að halda einfaldlega til að geta rekið grundvallarþjónustu velferðarsamfélagsins. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir hitt, þrátt fyrir öll orð íslenskunnar og allt stafrófið.

Hlutverk þessarar Eflingar-konu í samfélagi okkar á því herrans ári 2023 er einfalt: Hún á að vinna, hún á að hlýða og hún á að borga. Og ef að hún dirfist að standa með sjálfri sér og krefjast þess að tilveruskilyrði hennar séu bætt, ef hún dirfist að berjast, ef hún dirfist að nýta lögvarin grundvallarmannréttindi sín og gera það sem þarf til að eiga möguleika á að öðlast betra líf gerir framferði hennar meðlimi borgarastéttarinnar veika af hryllingi.

Þorsteinn Víglundsson.
En slík hegðun þekkist ekki í íslenskum efri lögum samfélagsins.
Ljósmynd: Hringbraut.

Samkvæmt helsta postula borgarastéttarinnar, fyrrum framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, fyrrum félagsmálaráðherra Viðreisnar og eilífum föður Jafnlaunavottunarinnar (nýjustu innleiðingunni á „íþyngjandi“ hugmyndafræðilegu regluverki stjórnvalda; fyrir þau sem að hafa gaman af yfirgengilega þversagnakenndu eðli kapítalista er það skemmtileg skemmtisaga; í það minnsta hjartnæm tragíkómedía) er barátta Eflingar-konunnar fyrir betra lífi ekkert annað en and-lýðræðislegt lögbrot. En slík hegðun þekkist ekki í íslenskum efri lögum samfélagsins.

Staðreynd úr lífi Eflingar-konu: Þrátt fyrir að vera ómissandi kona, ein af þeim konum sem að gerir öðrum kleift að stunda vinnu með því rogast um með umönnunarkerfin okkar á sínum konu-herðum á hún ekkert inni hjá stjórnvöldum. Ekkert inni hjá leigusölunum. Ekkert inni hjá bankanum. Ekkert inni hjá fínum mönnum. Ekki einu sinni þeim fínu mönnum sem meyrir og mjúkir af kven-vinsemd gleymdu því sem snöggvast að þeir hata ekkert meira en afskipti stjórnmálanna af kjaramálum og útbjuggu heilan lagabálk um jöfn laun og sérstakt launa-stjórnunar-vottunarkerfi þegar þeir um stund dunduðu sér við stjórnmála-frama. Nei, allra síst þeim. Enda er Eflingar-konan láglaunakona, ekki hálaunakona. Hún er verkakona, vinnukona, „hlýddu og borgaðu“ kona. Og það á hún að vera alla sína ævi, alla sína stritandi verkakonu-ævi.

Eflingarkonan:

Verður er verkamaðurinn launa sinna? Nei, ekki í Reykjavík. Í Reykjavík er leigusalinn verðugur launa verkakonunnar.

Staðan í lífi Eflingar-konu: Fríið er búið. Nú hefst biðin eftir næstu mánaðarmótum. Nú er konu-heilinn á yfirsnúningi við að reikna hvernig í ósköpunum verður hægt að láta hlutina ganga upp. Hvernig verður það hægt? Hafið þið einhver svör við því? Ekki veit ég það. Samkvæmt niðurstöðum Vörðu um stöðu Eflingar-fólks geta 55,4% Eflingar-kvenna ekki mætt óvæntum 80.000 króna útgjöldum. 27,8% Eflingar-kvenna hafa ekki efni á afmælis eða jólagjöfum handa börnum sínum. 27,2% Eflingar-kvenna hafa ekki efni á nauðsynlegum klæðnaði fyrir börnin sín. 53,8% Eflingar-kvenna búa við þunga byrði af húsnæðiskostnaði. Þær vinna og vinna en launin þeirra eru í raun aldrei þeirra, nei, meðlimir eignastéttarinnar gera þau að mestu upptæk um hver mánaðarmót. Í skiptum fyrir þau grundvallarmannréttindi sem að húsaskjól hlýtur að vera. Gera þau upptæk með samþykki og velþóknun stjórnmálastéttarinnar. Sem er auðvitað fyrir löngu búin að afmá öll mörk á milli lýðræðis og kapítalsima og vinnur einungis fyrir hin ríku. Á kostnað Eflingar-konunnar.

Verður er verkamaðurinn launa sinna? Nei, ekki í Reykjavík. Í Reykjavík er leigusalinn verðugur launa verkakonunnar.

Framtíð Eflingar-konunnar: Hver er hún? Hvað gerist í haust og vetur? Við hljótum öll að bíða spennt. Spennt eftir næsta frekjukasti auðvaldsins. Hverju finna þau upp á? Spennt eftir viðbrögðum stjórnmálastéttarinnar; felur, flótti, forðun, fáránlegheit? Allt þetta; fundir í útlöndum? En allra spenntust hljótum við að bíða eftir afstöðu verkalýðshreyfingarinnar: Munu menn geta gert hið eina rétta í stöðunni? Munu menn geta staðið með Eflingar-konunum, verkakonum höfuðborgarsvæðisins, fórnarlömbum leigumarkaðarins, fórnarlömbum löglegrar mánaðarlegrar eignaupptöku. Munu menn geta viðurkennt að ekkert er á þessum tímapunkti mikilvægara en að berjast fyrir þessar konur, arðrændar verkakonur samfélags okkar, sýna manndóm og berjast fyrir þær en auðvitað fyrst og fremst með þeim. Berjast og bakka ekki við fyrsta bökkunar-tækifæri. Berjast fyrir Eflingar-konuna og um leið gera hana að baráttu-fyrirmynd. Fara alla leið. Munu hálauna-karlar verkalýðshreyfingarinnar gera það? Vilja þeir gera það? Á Eflingar-konan eitthvað inni hjá þeim?

Eflingarkonan:

Að láta fullorðna konu lifa við stöðugar fjárhagsáhyggjur vegna siðlauss leigumarkaðar. Hún heyrir endalaust þvaður og engar efndir. Hún vonar að eitthvað breytist en hún er líka full af vonbrigðum.

Eflingar-konan akkúrat núna: Hún horfir í kringum sig og sér að samfélagið sem hún býr í og heldur uppi, lætur sig hana engu varða. Kannski vill samfélagið halda henni jaðarsettri og fátækri? Kannski er þögult samþykki fyrir því að best sé einfaldlega að fórna henni fyrir hagsmuni þeirra ríku og innfæddu? Það er sífellt meira sem bendir til þess. Hún veltir því fyrir sér hvort að hægt verði að láta ríkisstjórnina sjá hana, sjá aðstæður hennar, viðurkenna að það er ekkert annað en ógeðslegt að láta konu strita til þess eins að geta tryggt sér þak yfir höfuðið. Að láta fullorðna konu lifa við stöðugar fjárhagsáhyggjur vegna siðlauss leigumarkaðar. Hún heyrir endalaust þvaður og engar efndir. Hún vonar að eitthvað breytist en hún er líka full af vonbrigðum. Hún horfir á verkalýðshreyfinguna og hugsar með sér: Kannski geta þeir staðið með okkur. Kannski geta þeir staðið með Eflingar-konum. Kannski vilja þeir berjast með okkur. Kannski. Vonandi. Því að hún getur ekki meira. Það er ekki hægt að biðja hana um að fórna meiru. Það er kominn tími til að hennar hagsmunir verðir settir í fyrsta sæti. Eflingar-konan á ekkert minna skilið en það. Það eru einfaldlega hennar kvenna-mannréttindi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: