
Ríkisstjórnin minntist þess í gær að hafa verið við völd í eitt hundrað daga. Þá er víst að Mogginn og flokkurinn hafi verið í fýlu í hundrað daga. Asnaspörk Moggans verða sífellt hjákátlegri. Í tilefni fýluafmælisins í Hádegismóum birtum við hér í heild þann hluta leiðara dagsins sem fjallar um hundrað daga ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur.
„Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur náði þeim áfanga á dögunum að verða 100 daga gömul og var þess minnst með sérstökum blaðamannafundi oddvita stjórnarinnar. Valkyrjurnar voru roggnar með sig og lýstu órofa samstöðu og fádæma vinnusemi, sem vart ætti sér jöfnuð í lýðveldissögunni.
Algert met raunar.
Um það má ugglaust deila, en um hitt geta allir verið sammála, að þessir fyrstu 100 dagar – hveitibrauðsdagar ríkisstjórnarinnar – eru einstæðir. Algert met raunar.
Engin ríkisstjórn hefur farið jafnbrösuglega af stað, aldrei áður hefur það gerst að ráðherra neyðist til þess að segja af sér svo skjótt og uppi er vafi um að forsætisráðherra hafi sagt þinginu satt.
Vanalega eru hveitibrauðsdagar sæluríkir og auðveldir, en svo tekur alvara lífsins við. Ríkisstjórnin má vart við því að róðurinn þyngist frekar. Samt er viðbúið að það gerist þegar líður að fjárlagavinnunni, nefna má ýmis „erfið mál“ í uppsiglingu og hver getur útilokað enn eina uppákomuna í stjórnarliðinu?
100 viðburðaríkir dagar eru að baki, en 1.360 dagar eru eftir af kjörtímabilinu. Vandséð er að stjórnin lifi aðra slíka 100 daga.“
Værsågod.