- Advertisement -

Er í 80 prósent vinnu og fær milli 260.000 – 265.000 kr. útborgað

Sólveig Anna Jónsdóttir.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Upprisa láglaunakvenna um víða veröld var hafin af krafti áður en Covid-19 skall á, sem betur fer. Faraldurinn hefur ekki gert neitt nema sýna okkur sjálfum og svo öllum sem eru ekki algjörlega heilaþvegin af kven-fjandsamlegri nýfrjálshyggjunni að þegar við höfum sagst gegna algjöru undirstöðuhlutverki í samfélaginu höfum við ekki farið með neinar ýkjur.
Öll samfélög, okkar eigið íslenska „besta í heimi“ þar með talið, væru algjörlega bjargarlaus án láglaunakvenna í umönnunarstörfum. Samt tíðkast hér eins og alls staðar að verðmeta vinnuaflið okkar á einhverjum ömurlegum útsöluprís. Það fylgir Ísland nákvæmlega sömu útreikningum og aðrir forhertir arðræningjar. (Vissuði t.d. að konurnar sem vinna við að gæta smábarna í Ameríku fá því sem næst nákvæmlega sömu laun og konunnar sem gera það hér?)

Ég fagna því innilega að konur eins og Fríða stígi nú fram af fullum krafti, tilbúnar til að taka baráttuna fyrir efnhagslegu réttlæti í eigin hendur. Við höfum reyndar lengi verið miklu meira en tilbúnar, en við höfðum ekki vettvanginn eða styrkinn hvor af annari. Nú höfum við hvort tveggja.

Við munum ekki hverfa aftur inn í skuggana. Nú vita öll það sem við sjálfar vissum áður; við erum samfélaginu bókstaflega lífsnauðsynlegar. Og við ætlum okkur að fá algjöra viðurkenningu á því.

„Það verður ekki bara annar hnefinn heldur báðir!“

Radíó Efling þáttur #2 – Unnið heima… hjá öðrum

Fríða Hammer vinnur í heimaþjónustunni í Kópavogi. Hún er í 80% vinnu og fær milli 260.000 – 265.000 kr. útborgað. Inni í þessu er greiddur kaffitími, fæðispeningar og akstur enda þarf Fríða að keyra frá einu heimili til annars, vítt og breytt um Kópavoginn. Fríða hittir samstarfskonur sínar á morgnana fyrir fyrstu heimsókn og drekkur kaffi með þeim en borðar svo hádegismat í bílnum á milli heimsókna.

Fríða, sem situr í samninganefnd Eflingar gegn SÍS, lýsir því hvernig var að koma aftur til vinnu eftir að fresta þurfti verkfalli, enn þá samningslaus, og í nýjan veruleika COVID-19 faraldursins. Vegna þessa fordæmalausu aðstæðna er ætlast til mikils sveigjanleika af þeirra hálfu, eða eins og Fríða orðar það „að þær vinni skítverkin á lægstu laununum“. Hún gagnrýnir þetta og segist sjálf ekki vera samvinnuþýð eftir að hún kom aftur til vinnu: „Ef þeir sýna engan sveigjanleika í viðræðunum við okkur finnst mér ekki að við þurfum að sýna þeim neinn sveigjanleika“. Hún á ekki von á öðru en að eftir að skólarnir byrji aftur í haust og faraldurinn er liðinn hjá haldi kjarabaráttan áfram af fullum krafti – „það verður ekki bara annar hnefinn heldur báðir!“

Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni með því að leita að Radíó Efling í hlaðvarps-appinu þínu, eða með því að fara á heimasíðu þáttarins á podcast.efling.is


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: