
Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur skrifaði:
Sú mótsögn að einhver vörn felist í varnarleysi er kannski aðallega gamansemi – en hafði þau bakrök í kalda stríðinu að kjarnorkusprengju yrði síður varpað á Keflavík ef við værum herlaus sem þjóð. Þessi rök eru hins vegar ekki bara gamansemi, heldur líka fágæt vitleysa því Bandaríkin (og NATÓ) höfðu herstöð í Keflavík allt kalda stríðið og hafa enn – herstöð sem enginn Íslendingur veit hvaða vopnum var/er búin. En erum við tilbúin að horfa allsgáðum augum á varnarmál og ganga í takt við vinaþjóðir okkar?
Ég get ekki tekið afstöðu til efnis þessarar greinar, mér finnst umræðan um það þurfa að þróast meira. Flestum er ljós nauðsynin á einhverjum íslenskum vörnum og þær eru ekki aðeins hernaðarlegar, ekki síður hvað varðar vörn innviða, varnir gegn skemmdarverkum, hefndaraðgerðum og hryðjuverkum, skaðlegum upplýsingaveitum (sem nú eru aðallega rússneskar), árásum á almenning á fjölmennum stöðum og gegn hatursáróðri.
En margir – t.d. Ingibjörg Sólrún, fyrrv. utanríkisráðherra – vilja efla Landhelgisgæsluna og lögregluna og sjálfsagt fleiri ríkisstofnanir. Aðrir telja að njósna- og eftirlitshlutverk eigi að færa frá borgaralegum stofnunum. Á þeirri skoðun er greinilega Bjarni Már.
Þegar sagt er að beita eigi íslensku hugviti til að þróa nútíma hergögn – sem alls ekki er óraunhæf hugmynd og gæti verið ábatasöm – þá tekst það á við hugmyndir margra um siðferðislegar skyldur friðelskandi fólks.