- Advertisement -

Fæðingarorlofið sniðið að þeim auðugu

Haukur Arnþórsson.

„Mér vitanlega greiðir ekkert vestrænt ríki þeim sem eru tekjuhærri og auðugri meira út úr félagsmálapökkum en þeim sem eru tekjulágir – nema Ísland. Hér á ég við fæðingarorlofskerfið sem er umræðuefni mitt í dag – og svo einskiptis aðgerðina: leiðrétting verðtryggðra lán,“ þetta skrifar Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur.

Haukur skrifar einnig: „Hlutverk ríkisins er auk þess að annast samneyslu – væntanlega í takt við það sem sett var fram í frönsku byltingunni, vestræn þjóðfélög eiga uppruna sinn þar – að tryggja frelsi, jafnrétti og bræðralag. Af þessu leiðir margt, svo sem að ríkið heldur uppi sannleikanum í samfélaginu, enda rannsóknarskyldur þess margar.

Í grein í Kjarnanum nýlega vekur Ósk Dagsdóttir athygli á því að fæðingarorlofskerfið er bastarður að því leyti að það greiðir tekjuháum meira en tekjulágum og hafa hærri mörkin hækkar stórlega nýlega, en ekki lægri mörkin. Réttlætingin er að tekjuháir feður fáist ekki til að annast börnin sín nema ríkið greiði þeim vel fyrir – annars láti þeir konuna um það.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hér er sem sagt brotin meginregla vestrænna samfélaga um jöfnuð – á grundvelli jafnréttissjónarmiða – ef það er jafnrétti að ríkið „múti“ tekjuháum körlum til þess að passa börnin sín.

Ég vakti nýlega athygli á þessu hér og fékk þau andsvör að tekjuöflun fæðingarorlofssjóðs væri þannig að þeir tekjuháir greiddu meira en tekjulágir og því væri þetta réttlátt. En það eru engin rök því ríkið getur ekki tengt tekjuöflun við samneyslu – ef það væri gert fengju miklir skattgreiðendur mikið meira út úr samneyslu en litlir – en því er einmitt þveröfugt farið.

Ekkert samband er milli tekjuöflunar ríkisins og útdeilingar félagamálapakka og á ekki að vera. Raunar er það svo að tekjuöflunin á að jafna hlut íbúanna – þannig að í okkar heimshluta þykir eðlilegt að tekjuháir greiði hlutfallslega meira til samneyslu en tekjulágir – og hvað varðar fæðingarorlofssjóð er því ekki einu sinni þannig farið – greiðsluhlutfallið er jafnt fyrir alla.

Hvort sjóður í einkaeigu má greiða tekjuháum og ríkum meira en tekjulágum er svo annað mál – en ríkið má það aldrei. (Í því ljósi skýrist líka hvað leiðrétting verðtryggðra lána sem rann til efri millistéttar, var hörmulegur félagsmálapakki og í andstöðu við vestræn sjónarmið).“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: