- Advertisement -

Farþegar borgarlínu fá ekki að vera með

Hvernig verður ferðum að borgarlínu háttað?

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Þetta er ekkert nýtt. Svona eru gestir Egils Helgasonar oftast. Ákaflega einsleitur hópur.

Í fjögur ár þurfti ég algjörlega að reiða mig á strætó. Hafði ekki efni á að eiga bíl. Mér fannst mjög gott að sitja í strætó og yfirleitt voru bílstjórarnir mjög elskulegir. En að bíða eftir stætó, húka við staura í slæmum veðrum og reiða mig á götótt strætókerfi þar sem allt of langt getur verið á milli ferða gat verið heilt helvíti. En ég er aðeins aumur farþegi og hef ekki verið spurð um hvað þurfi að gerast til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Borgarlína okey. En hvernig á að komast að borgarlínunni fyrir þá sem ekki búa nálægt þeim leiðum sem hún ekur eftir? Það er stóra spurningin fyrir auman strætófarþega eins og mig. Um nýtt samgöngukerfi var fjallað í Silfrinu í dag en ekki orð um þetta. Ég heimsótti vef Samgönguráðuneytisins til þess að afla mér upplýsinga um málið. Ekki orð um það. Hjólastígar og göngustígar eru sérstaklega tilgreindir sem er vel, en um ferðir að borgarlínu ekki orð.

Þú gætir haft áhuga á þessum


Mun kerfið kosta meira en strætó kostar í dag?

Hvernig verður ferðum að borgarlínu háttað? Hvernig verður sá veruleiki fyrir fólk sem reiðir sig á almenningssamgöngur? Verða strætóskýli sem ver mann fyrir íslenskri veðráttu á hverri stoppistöð? Hversu tíðar verða samgöngurnar að borgarlínu? Hversu margar verða stoppistöðvarnar? Verður þetta alvöru valkostur eða bara fín borgarlína? Hversu lengi munu svona strætóar ganga á kvöldin? Kemst ég í bíó á kvöldin, með því að fara fyrst í strætó að borgarlínu, síðan með borgarlínu og svo með strætó heim frá borgarlínu?

Þetta eru spurningarnar sem brenna á mér og þeim sem raunverulega þurfa að reiða sig á strætó. Hvernig mun þetta kerfi reynast t.d. einstæðu fátækum foreldrum sem eiga ekki bifreið og þurfa að nota þetta nýja kerfi? Mun kerfið kosta meira en strætó kostar í dag? Verður það dýrara fyrir láglaunafólk og aðra sem eiga vart fyrir salti í grautinn?

Í Silfrinu var ekki orð um þetta. Gestirnir í settinu hjá Agli Helgasyni voru enda allt saman fólk á mjög góðum launum. Fólk sem þarf ekki að hugsa um það sem fátækir strætófarþegar þurfa að spá í. Að sjálfsögðu var Egill Helgason ekki með neinn gest sem þarf raunverulega að reiða sig eingöngu á það samgöngukerfi sem var til umfjöllunar. Þetta er ekkert nýtt. Svona eru gestir Egils Helgasonar oftast. Ákaflega einsleitur hópur.

Silfrið – 29.09.2019


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: