- Advertisement -

Fengu óskirnar uppfylltar með falli WOW

Seðlabanki Íslands hefur orðið sér að athlægi fyrir glórulausa peningamálastjórnun.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Svona fór með flugferð þá. Stjórnvöld fengu óskir sínar uppfylltar um að það yrði samdráttur í efnahagslífinu. Seðlabankann fékk ósk sína uppfyllta um að gjaldeyristekjur drægjust saman og spennan í efnahagslífinu minnkaði. Fyrst óskir hafa ræst, þá hljóta þessir aðilar að vera með tilbúin úrræði til að bregðast við ástandinu.

Skoðum áhrifin af gjaldþroti WOW í nokkrum lykiltölum:

Þú gætir haft áhuga á þessum
Hluti samdráttar hjá WOW var þegar kominn fram í ákvörðunum fyrirtækisins.

Fjöldi ferðamanna: WOW air flutti 40% ferðamanna sem komu til Íslands um Keflavíkurflugvöll á síðasta ári. Samkvæmt Ferðamálastofu var heildarfjöldinn 2,3 milljónir og 40% af þeirri tölu er 920.000 manns. Hluti samdráttar hjá WOW var þegar kominn fram í ákvörðunum fyrirtækisins. Eftir standa um 650.000 ferðamenn sem gera má ráð fyrir að hefðu komið með flugfélaginu á árinu. Það gerir um 28,6% ferðamanna á síðasta ári.
Gjaldeyristekjur: Samkvæmt tölum Hagstofunnar þá voru útflutningstekjur vegna ferðalaga og farþegaflutning með flugi 519,5 ma.kr. árið 2018. 28,6% af þeirri tölu 148,6 ma.kr. Heildargjaldeyristekjur vegna vöru- og þjónustuviðskipta voru 1.323 ma.kr. á síðasta ári. 148,6 ma.kr. eru 11,2% af þeirri tölu.
Atvinnuleysi: Gert er ráð fyrir að 3-4.000 manns muni missa vinnuna vegna gjaldþrots WOW. Aftur vitna ég í tölur Hagstofunnar, en samkvæmt þeim voru 6.700 manns skráðir atvinnulausir í lok febrúar. Spár gera því ráð fyrir á bilinu 45-60% aukningu atvinnuleysis.
Ferðaþjónustan: Ég ætla bara að skoða fjölda gistinátta, hann var 9 milljónir á síðasta ári. 28,6% af þeirri tölu er rúmlega 2,5 milljónir. Get ég séð fyrir mér að árið verði erfitt fyrir mörg hótel og gististaði. Áhrifin verða líklegast svipuð fyrir aðra þætti ferðaþjónustunnar.

Ég vil aftur óska Má Guðmundssyni og félögum hjá Seðlabanka Íslands til hamingju með að hafa náð því markmiði bankans að draga úr gjaldeyristekjum þjóðarinnar (sjá viðtöl við Má Guðmundsson og Þórarinn G. Pétursson í lok ágúst 2016). Þetta er alveg einstakt afrek, sem ég er viss um að bankinn verður öfundaður af út um allan heim, eins og svo margt annað sem Már og félagar hafa afrekað á síðustu árum. Ég er viss um að þetta fer í sögubækurnar og hagfræðirit, þó að það verði ekki undir þeim formerkjum sem Már og félagar vona. Seðlabanki Íslands hefur orðið sér að athlægi fyrir glórulausa peningamálastjórnun. Ég fullyrði að ENGINN seðlabanki í heiminum hefur valdið eins miklum skaða á gjaldeyrissköpun þjóðar, eins og Már og félagar á síðustu árum.

Ég er með þessu ekki að draga fjöður yfir mistök Skúla Mogensen. En eiga fyrirtækjaeigendur virkilega að þurfa að gera ráð fyrir að Seðlabankinn sé helsta ógn í rekstrarumhverfi fyrirtækjanna? Virkilega ógnvænleg staðreynd samt.

Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: