- Advertisement -

Gengur um Karphúsið í eins konar Maofötum

Hrafn Magnússon skrifar:

Öðru hvoru eru sýndar myndir eða öllu frekar fréttir úr húsakynnum Ríkissáttasemjara. Þessi húsakynni ganga almennt undir nafninu „Karphúsið“  og er það vel. Þessar sjónvarpsfréttir minna mig oft á árin 1977 til 1997, þá gegndi ég störfum sáttamanns í kjaradeilum opinberra starfsmanna og bankamanna.

Í kjaradeilu BSRB og ríkisins árið 1977 sat ég í sáttanefnd undir forystu Torfa Hjartarsonar, sem bæði gegndi stöðu ríkissáttasemjara og starfi tollstjóra. Torfi var formfastur embættismaður, vinsæll og dáður af öllum sem kynntust honum. Við Torfi vorum nábúar í Norðurmýrinni en aldursmunurinn var rúmlega fjörutíu ár.

Þegar verkfall opinberra starfsmanna skall á árið 1977 fluttust kjaraviðræðurnar yfir í Háskóla Íslands, þetta voru langir og strangir samningafundir. Kannski gefst tími til þess seinna að fjalla um þá atburði. Þegar vinur minn og kunningi, Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari gengur nú um ganga Karphússins í eins konar Maofötum, fer ekki hjá því að ég brosi í kampinn og verði hugsað til hins formfasta embættismanns Torfa Hjartarsonar. Svona breytast tímarnir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: