Þessi örlitla lækkun er varla merkjanleg fyrir venjulegt fólk, en samt hoppa greiningardeildirnar upp á nef sér. Spurningin er: Hvers vegna?
Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, skrifar:
Það er eiginlega broslegt að fylgjast með greiningardeildum bankanna þessa dagana. Seðlabankinn lækkar stýrivexti um 0,25% – og þau grenja eins og stungnir grísir. Eins og þetta sé heimsendir.
Þessi örlitla lækkun er varla merkjanleg fyrir venjulegt fólk, en samt hoppa greiningardeildirnar upp á nef sér. Spurningin er: Hvers vegna?
Þetta er ekki í lagi.
Kannski af því að þeir vita að háir vextir eru góður bisness fyrir bankana. Og þeir eru orðnir vanir því að Seðlabankinn spenni bogann í botn, sama hvað. Þeir vilja áframhaldandi hörku, þó svo að Ísland sé þegar með hæstu stýrivexti í Evrópu – og eina landið sem níðist á neytendum með verðtryggingu á húsnæðislánum.
Og það er akkúrat stóra málið:
Verðtryggingin eyðileggur það sem stýrivextir eiga að gera. Í öðrum löndum virkar þetta þannig að þegar stýrivextir hækka, þá hægir á neyslu og verðbólgu. En hér á landi sitjum við uppi með verðtryggð lán sem hækka bara áfram, sama hvað Seðlabankinn gerir. Vaxtatækið er bilað – og samt eru menn að bölva því að það sé aðeins slakað á.
Þetta er ekki í lagi. Það þarf að ræða stóru málin:
- – Af hverju er Ísland eina landið sem heldur í verðtryggingu?
- – Hverjir græða á því að halda þessari stefnu í gangi?
Ef við ætlum að komast eitthvað áfram, þá þurfum við að hætta að hlusta svona blint á bankana og þeirra greiningardeildir. Þeir eru ekki að verja heimilin. Þeir eru að verja sína hagsmuni.