- Advertisement -

Halldór Benjamín bjó til vandann

Efling hefur þannig ítrekað nálgast SA en þau hafa hins vegar ekki hreyft sig um millimetra – og beinlínis neitað að ræða um efnisatriði.

Stefán Ólafsson skrifaði grein á Vísi. Hér er hluti hennar:

Deila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur harðnað og engar viðræður hafa verið milli aðilanna um nokkurt skeið. Raunar hefur það einkennt þessa deilu frá byrjun að engar alvöru viðræður hafa farið fram við Eflingu að hálfu SA-manna. Enda var það þeirra ásetningur frá byrjun að láta aðra semja fyrir Eflingu. Þessi strategía SA er einmitt helsta rótin að þeim vanda sem nú blasir við. Skoðum það nánar.

Herfræði SA-manna var frá upphafi hugsuð þannig, að ná samningi fyrst við þá sem voru líklegri til að vera auðveldari viðfangs en Efling og stilla Eflingu svo upp við vegg með annarra félaga samning (samning Starfsgreinasambandsins – SGS) og útiloka nokkur frávik frá honum. Þetta er ígildi þess að neita Eflingu, langstærsta félagi verkafólks í landinu, um þann sjálfstæða samningsrétt sem Eflingarfólk sannarlega hefur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

SÓ:

svo virðist sem SA-menn hafi verið vissir um að Eflingu væri um megn að beita nokkrum þrýstingi í kjarabaráttu sinni, eftir að búið var að einangra félagið án raunverulegra samningaviðræðna og stilla upp óbreyttum SGS-samningi sem eina valkostinum sem í boði væri.

Þetta var ekki vegna þess að upphaflegar kröfur Eflingar væru út úr öllu korti eða að Efling sýndi engan samningsvilja. Þvert á móti hefur Efling þrisvar sinnum fært niður kröfur sínar (sem upphaflega voru einfaldlega byggðar á uppfærslu Lífskjarasamningsins með tilliti til hærra verðbólgustigs), í endurteknum tilboðum til SA-manna. Efling hefur þannig ítrekað nálgast SA en þau hafa hins vegar ekki hreyft sig um millimetra – og beinlínis neitað að ræða um efnisatriði.

Þetta er þeim mun alvarlegra fyrir þá sök að óbreyttur samningur SGS myndi skila Eflingarfólki lægri meðallaunum og minni raunhækkunum en almennt er hjá öðrum félögum SGS, vegna þess að samsetning Eflingarfélaga er ólík með tilliti til röðunar í launaflokka og starfsaldursþrep, auk þess sem misjafnt er hvernig álög og bónusar skila sér til félagsmanna.

Þess vegna hefur Efling frá byrjun farið fram á breytta launatöflu, með annarri útfærslu en er í SGS-samningnum, og einnig að tillit væri tekið til þess að húsnæðiskostnaður er óvenju þungur á svæði Eflingarfólks (höfuðborgarsvæðinu).

Í aðra röndina hafa SA-menn sagst vera tilbúnir til að ræða aðra útfærslu launatöflunnar og þá innan svipaðs kostnaðarmats og SGS-samningurinn, en hins vegar hafa þau ekki enn fengist til að ræða þessi mál. Hvers vegna skyldi það vera?

Jú, svo virðist sem SA-menn hafi verið vissir um að Eflingu væri um megn að beita nokkrum þrýstingi í kjarabaráttu sinni, eftir að búið var að einangra félagið án raunverulegra samningaviðræðna og stilla upp óbreyttum SGS-samningi sem eina valkostinum sem í boði væri. Markmiðið var að þvinga Eflingu og smala félagsmönnum hennar í dilka Starfsgreinasambandsins, með lakari uppskeru en aðrir. Og gáið að því að Eflingarfólk er almennt með lægstu launin í samfélaginu og býr við hæsta húsnæðiskostnaðinn.

Síðan þegar sáttasemjari gerði óbreytt tilboð SA-manna að „miðlunartillögu“ sinni, í þeirri von að aftra verkföllum, þá var þessi víðtæka tilraun til að afnema sjálfstæðan samningsrétt Eflingar orðin öllum ljós. Þetta var auðvitað óþolandi fyrir Eflingarfólk. SA-menn eru hins vegar enn við sama heygarðshornið og hvika hvergi, virðast stóla á að með atkvæðagreiðslu um „miðlunartillöguna“ verði hægt að þvinga fram lausn samkvæmt upphaflegu plani þeirra.

Nú blasir við að Efling hefur alvöru slagkraft og í það stefnir að áhrif verkfalla geta orðið víðtæk á næstunni. Enginn skyldi heldur vanmeta getu Eflingarfólks til að fella „miðlunartillögu“ sáttasemjara.

Er þá ekki tímabært fyrir SA-menn að tengja sig við veruleikann og koma að samningaborðinu og leita lausna? Vilja þeir láta óbilgjarna málsmeðferð sína leiða deiluna í algjörar ógöngur?

Sjá nánar hér.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: