- Advertisement -

Helsti eigandi Icelandair: Helmingur PAR Capital gufaður upp

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Samkvæmt yfirliti yfir helstu eignir PAR Capital, stærsta eigenda Icelandair frá því á þriðja ársfjórðungi í fyrra var um 24,2% af eignum sjóðsins hlutir í United Airlines Holdings að markaðsvirði um um 182,5 milljarðar króna á núverandi gengi. Síðan þá hefur verðmæti hlutabréfa í United Airlines fallið um 71% og PAR Capital tapað 129,5 milljörðum króna á verðfalli þeirra.

Næst stærsta fjárfesting PAR Capital var Expedia Group (bókunarsíða), hlutir sem þá voru að verðmæti um 125,5 milljarðar króna en hafa fallið í verði um 38,4% eða um 48,3 milljarða króna.

Þriðja verðmætasta eign PAR Capital var Booking Holdings (bókunarsíða) upp á um 47,6 milljarða króna á núverandi gengi. Þessi bréf hafa fallið í verði um 33,6% og eign PAR Capital lækkað um 16,0 milljarða króna.

Paul A. Reeder.
PAR er skammstöfun stofnanda sjóðsins, Paul A. Reeder þriðja. Hann stofnaði þennan sjóð 1990 og hefur allar götur síðan einbeitt sér að fjárfestingum í flugi og ferðalögum.

Fjórða stærsta eign PAR Capital var 45,9 milljarða eign í DaVita (blóðhreinsimiðstöðvar fyrir nýrnasjúklinga). Þessi hlutabréf hafa haldið verðgildi sínu, hlutur PAR Capital aðeins lækkað um 600 m.kr.

Fimmta verðmætasta eign PAR Capital var 41,5 milljarðs króna hlutur í Allegiant Travel (Bandarískt lággjaldaflugfélag). Það félag hefur fallið um 60,0% í verði og PAR Capital tapað um 24,9 milljörðum króna.

Af öðrum eignum sem PAR Capital hefur tapað á eftir hrun ferðaþjónustunnar má nefna TripAdvisor, Trivago og bílaleigurnar Hertz og Avis.

Þegar hlutafé Icelandair var aukið um vorið í fyrra keypti PAR Capital allt nýja hlutaféð sem félagið gaf út og bætti síðan enn við hlut sinn næstu vikur og mánuði. Ef við miðum við gengi bréfa og dollars við fyrstu kaupin þá námu kaupin um 56,5 milljónum dollara. Síðan hefur verðmæti þessa hlutabréfa fallið mikið og enn frekar í dollurum, eða um 77,6%. Á gengi dagsins nemur tap PAR Capital um 4,9 milljörðum króna.

Þetta er ekki há upphæð miðað við samanlagt rúmlega 219 milljarða tap af fimm stærstu fjárfestingum PAR Capital en hlutfallslega mun verri. Sjóðurinn hefur tapað 77,6% af því sem hann lagði í Icelandair en „aðeins“ um helming af því sem hann hafði geymt í fimm stærstu fjárfestingunum, sem samanlagt eru um 59% af þessum sjóði.

Þetta er samsagt stærsti hluthafi Icelandair. PAR er skammstöfun stofnanda sjóðsins, Paul A. Reeder þriðja. Hann stofnaði þennan sjóð 1990 og hefur allar götur síðan einbeitt sér að fjárfestingum í flugi og ferðalögum. Það er ástæða þess að fáir ef nokkrir fjárfestingarsjóðir hafa fallið jafn mikið í verði og PAR Capital. Warren Buffet, sem fyrir skömmu braut þá reglu sína að fjárfesta aldrei í flugfélögum, hefur vissulega tapað fleiri dollurum en hlutfallslega mun minna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: