- Advertisement -

Sjúkratryggingar eru nýfrjálshyggjudella

Það er blind heimska, eins og allt sem byggt er á þessari mannhatursstefnu sem nýfrjálshyggjan er.

Gunnar Smári skrifar:

Upphaf niðurbrots opinberrar heilbrigðisþjónustu var á bóluárunum fyrir Hrun. Þá var skorið niður þrátt fyrir góðæri og línur lagðar fyrir áframhaldandi niðurskurði með markaðsvæðingu og markaðshugsun, t.d. með því að búa til Sjúkratryggingar, sem er ímyndaður kaupandi fyrir hönd ríkissjóðs. Sjúkratryggingar eru nýfrjálshyggjudella, byggt á hugmyndinni um að best sé að reka opinbera þjónusta eftir sömu lögmálum og hlutafélög, sem hafa það eitt markmið að draga fé upp úr rekstrinum og færa eiganda sínum. Sjúkratryggingar gæta hagsmuna almennings sem fjármagnseigenda, en hefur ekkert vit á hagsmunum almennings þegar hann veikist, þarf á lækningu, endurhæfingu eða aðhlynningu að halda.

Þessi hugsun hefur líka yfirtekið opinbera heilbrigðisþjónustu sem ekki er háð Sjúkratryggingu. Þar er gerð 5% aðhaldskrafa á ári, hver eining þarf að spara á hverju ári án þess að hafa aðra kosti en að skera niður þjónustu, fækka legurýmum, fækka aðgerðum, auka við gjaldtöku eða auka vinnuálag á starfsfólk án tillits til þess hvort þetta leiði til sparnaðar fyrir samfélagið á endanum. Vond heilsa þeirra sem bíða eftir aðgerðum eða eiga ekki efni á að sækja lyf, svo dæmi séu tekin, er ekki með í reikniformúlu nýfrjálshyggjunnar. Eina sem hún heyrir og skilur er ef það klingir í kassanum, hún kann ekki að telja annað en peninga.

Hér er yfirlit yfir sjúkrahúsrými frá árinu áður en nýfrjálshyggjan hrynur 2008. Því miður hafa stjórnvöld á Íslandi ekki fattað eða sætt sig við þá staðreynd, heldur halda þau áfram að láta þessa hugmyndafræði mylja undir sig það mikilvægasta í samfélaginu, velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfinu, og skaða líf íbúanna.

Frá 2007 fækkaði sjúkrahúsrýmum til 2019 úr 412 á hverja 100 þúsund íbúa í 280 eða um 32%. Var það gáfulegt? Ó, nei. Það er blind heimska, eins og allt sem byggt er á þessari mannhatursstefnu sem nýfrjálshyggjan er.

Samkvæmt sundurgreiningu Hagstofunnar fækkaði sjúkrarými úr 335 í 227 á hverja 100 þúsund íbúa, um 32%. Endurhæfingarrýmum fækkaði úr 25 í 18 á sama tíma, um 28%, hjúkrunarrýmum úr 52 í 34 eða um 34% og geðrýmum úr 59 í 36 eða um 40%.

Hvaðan fékk Bjanri peningana?

Hafið þetta í huga þegar þig heyrið fréttir um vandann á Landspítalanum, sem á í erfiðleikum með að taka hjálparlaust við veiku fólki vegna kórónafaraldursins. Auðvitað er fólkið veikt vegna faraldursins en vandi Landspítalans og heilbrigðiskerfisins til að taka á móti þessu er fyrst og fremst vegna manngerðs faraldurs sem grafið hefur undan öllum innviðum íslensks samfélags, nýfrjálshyggjunni.

Og næst þegar þið heyrið Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra stæra sig af góðri stöðu ríkissjóðs; spyrjið þá hvaðan maðurinn fékk peningana. Hann fékk þá með því að skera niður þjónustu til veiks fólks og hjálparþurfi. Hann er nefnilega nýfrjálshyggjunöttari sem telur að það sé gott fyrir ríkið að þjónusta ekki hin veiku og safna frekar peningunum í sjóði eða gefa fjármagnseigendum þá og allra stærstu eigendum allra stærstu fyrirtækjanna. Bjarni kann ekki að greina samfélagið frá öðru sjónarhorni en að telja hversu mikið fé hann náði að draga upp úr því, eins og væri hann hluthafi sem ætlar að taka fé og fela það í skattaskjólum. Eins og hann og vinir hans gera persónulega.

(Því miður ná tölur Hagstofunnar ekki aftar, svo ekki er hægt að byggja á þeim til að sýna hrörnun heilbrigðisþjónustu frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar og fram að Hruni, en það má sjá upplýsingar um það annars staðar. Ég pósta um það síðar.)


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: