- Advertisement -

Þriðji hluti: Milljarða tapið á Bakka

Heildarkostnaður ríkisins varð um 4,2 milljarðar.

„Ekki hafa hins vegar allar tilraunir til uppbyggingar orkufreks iðnaðar hér á landi verið mjög uppbyggilegar. Einna slysalegast tókst þó til þegar farið var í uppbyggingu kísilvers á Bakka við Húsavík. Þetta var í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og að undirlagi Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon var prímus mótor þessa verkefnis, sem hefur orðið mikill baggi á ríkissjóði,“ skrifar Ólafur Arnarson á heimasíðu Hringbrautar

Ólafur heggur í Vinstri og einkum í helsta stofnanda flokksins, Steingrím J. Sigfússon. Ólafur rekur hversu mikla peninga Steingrímur fékk úr ríkissjóði og afhenti eigendum iðjuversins:

„Bakki er í kjördæminu sem Steingrímur J. sat á þingi fyrir í næstum fjóra áratugi og til að laða að kísilver PCC lagði ríkið í jarðgangagerð og innviðaframkvæmdir, sem upphaflega áttu að kosta 1,8 milljarða en kostuðu tvöfalt þegar upp var staðið. Að auki stóð íslenska ríkið straum af þjálfun starfsfólks, en fátítt er að fyrirtæki geti komið slíkum kostnaði af sér á herðar opinberra aðila. Heildarkostnaður ríkisins varð um 4,2 milljarðar. Þá er ótalið víkjandi lán upp á 800 milljónir til hafnaryfirvalda vegna stækkunar Húsavíkurhafnar í þágu kísilversins. Óvíst er með endurgreiðslu þess og því getur kostnaður ríkisins hlaupið á fimm milljörðum þegar allt er talið saman.“

Bakki við Húsavík.

Þetta er fjarri allt:

„Rekstur Bakka hefur gengið brösuglega og var verksmiðjunni lokað um tíma en opnuð á ný fyrr á þessu ári. Óvíst er hvort nokkur fjárhagslegur ávinningur verður af kísilverinu. Öllu alvarlegra er þó að þrátt fyrir að kísilverið sé knúið með endurnýjanlegri orku þarf að brenna í því 60 þúsund tonnum af kolum á ári – ekki vegna orkunnar heldur vegna þess að brennsla kola er nauðsynleg fyrir efnahvörf sem kísilframleiðslan byggir á. Kísilver eru nefnilega einhver skítugasta stóriðja sem fyrirfinnst og athyglisvert að Vinstri græn, sem einatt segjast setja umhverfið og náttúruna í fyrsta sæti, skuli bera ábyrgð á því að slík framleiðsla var sett upp á Íslandi með ríkulegri meðgjöf frá íslenskum skattgreiðendum.“

Ólafur gleymir ekki tapi lífeyrissjóðanna: „Við þetta bætist að lífeyrissjóðir og Íslandsbanki lögðu kísilveri PCC að Bakka til 2,5 milljarða hlutafé sem nú hefur verið fært niður um 2 milljarða vegna óvissu um framtíð þess.“

Og svo þetta að lokum:

„Víst er að Vinstri græn hefðu fussað og sveiað, talað um umhverfissóða og glæpi gagnvart náttúrunni, umhverfinu og komandi kynslóðum hefðu einhverjir aðrir en þeir sett út rauða dregilinn fyrir svo skítuga og umhverfisspillandi framleiðslu hér á landi.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: