- Advertisement -

Pútín kremur Úkraínu

Innrás Rússlands í Úkraínu markar tímamót í sögu Evrópu.

Fleiri átök víða um heim og með ýmsum hætti.

Fréttaskýring á sunnudegi. Gunnar H.Ársælsson vann fyrir Miðjuna:

Allt frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu með um 150-200.000 manna herlið sitt þann 24. febrúar síðastliðinn hafa nánast öll önnur átök í heiminum fallið í skuggann.

Kænugarður, höfuðborg Úkraínu.

Ástandið minnir nú helst á það sem skapaðist í kringum Kúbudeiluna árið 1962, þegar Rússar komu fyrir kjarnorkuflaugum á kommúnistaeyjunni Kúbu, skammt undan ströndum Flórída. Bandaríkjamenn fóru á límingunum og í 13 daga stóð heimurinn á barmi gerðeyðingarstríðs, en deilan leystist friðsamlega.

Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur tekið skýrt fram að bandarískir hermenn muni ekki taka þátt í átökunum í Úkraínu. Geysileg spenna ríkir í alþjóðakerfinu, þrátt fyrir að hinu svokallaða ,,Kalda stríði“ hafi lokið fyrir meira en 30 árum síðan með falli Berlínarmúrsins og hruni Sovétríkjanna, sem stóðu frá 1922-1991.

Hins vegar er það svo að í viðbót við stríðið í Úkraínu er fjöldi átaka í gangi víða í  heiminum. Um 80% þeirra er í Asíu og Afríku, sum hafa verið í gangi áratugum saman. Hér á eftir fylgir umfjöllun um nokkur helstu átök heims og einkenni þeirra:

Sýrland í rúst

Borgarastríðið í Sýrlandi hófst árið 2011, í kjölfar þess sem kallast Arabísk vorið, sem var alda mótmæla sem gekk um Mið-Austurlönd, gegn þaulsetnum valdhöfum og skorti á lýðræði og mannréttindum.

Átökin eru á milli Sýrlandshers, hvers yfirmaður er forseti Sýrlands, Bashar al Assad og ýmissa andstæðinga hans. Inn í þessi hörmulegu átök hafa til dæmis blandast bæði Tyrkir, Bandaríkjamenn og nú síðast Rússar, ásamt mörgum öðrum hópum og fylkingum, sem of langt mál er að rekja.

Rússar hófu beina þátttöku í þessu stríði árið 2015 og hafa meðal annars notað stórar sprengjuflugvélar til árása á andstæðinga Assads. Assad hefur einnig beitt eiturefnavopnum og hlotið mikla fordæmingu fyrir. Mannfall er talið um 500.000 manns, milljónir eru á flótta, meðal annars til margra Evrópuríkja.

Hungursneyð í Jemen

Undanfarin ár hefur einnig geisað borgarastríð í landi sem heitir Jemen og er syðst á Arabíuskaganum. Þetta stríð hófst einnig árið 2014, með því að hópur sem kallar sig ,,Húta“ réðust inn í höfuðborgina Sanaa og náðu henni á vald sitt.

Hútar njóta stuðnings Írana, en Jemensk stjórnvöld hafa hins vegar notið stuðnings landa á borð við Sádí-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Talið er að þessi átök snúist í grundvallaratriðum um baráttu um völd og áhrif á milli Sáda og Írana.

Sádar tilheyra súnní grein Islam, en Íranir eru Sjítar, sem er hin megingrein íslamstrúar. Hörmulegt ástand hefur skapast í landinu, þar geisar hungursneyð.

Samkvæmt skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum hafa allt að 400.000 manns látist í þessum átökum, jafnvel fleiri.

Líbýa: Fall einræðisherrans Gaddafi

Múammar Gaddafi var einn af ,,sterku leiðtogunum“ sem Arabíska vorið náði til, en hann var einvaldur í N-Afríkuríkinu Líbýu frá árinu 1969 til 2011, þegar honum var steypt af stóli og tekinn af lífi af æstum múg.

Múammar Gaddafi var einn af ,,sterku leiðtogunum“ sem Arabíska vorið náði til, en hann var einvaldur í N-Afríkuríkinu Líbýu frá árinu 1969 til 2011, þegar honum var steypt af stóli og tekinn af lífi af æstum múg. Myndir og myndskeið af því hafa ferðast vítt og breitt um netheima.

Í fyrsta fasa borgarastríðsins í Líbýu er talað um tímabil frá febrúar til nóvember 2011, þegar Gaddafi var hrakinn frá völdum og síðan myrtur af uppreisnarmönnum í borginni Sirte í október 2011.

Seinni fasi þessa stríðs er svo sagður hafa byrjað árið 2014 og staðið til 2020, en enn þá er geysileg ólga og upplausn í landinu.

NATO, Egyptaland, Sýrland, og fleiri lönd og hópar hafa blandast inn í þessi átök, sem talin eru hafa kostað á bilinu 10.000 til 25.000 manns lífið. Mikill fjöldi fólks hefur einnig reynt að flýja frá og í gegnum Líbýu til Evrópu, yfir Miðjarðarhafið.

Nígería: Boko Haram rændi stúlkum, neyddi í kynlífsþrælkun

Undanfarin ár hefur verið gangi grimmileg styrjöld á milli stjórnarhers Nígeríu og hryðjuverkasamtaka sem kalla sig ,,Boko Haram“, sem þýðir ,,vestræn menntun er bönnuð“ eða álíka. Samtökin voru stofnuð árið 2002 og miða að því að stofna íslamskt ríki í Nígeríu, fjölmennasta landi Afríku, en íbúar þar eru um 206 milljónir.

Boko Haram hafa staðið fyrir alræmdum aðgerðum á borð við árásir á skóla og aðrar stofnanir nígerska ríkisins. Samtökin vöktu mikla athygli árið 2014 þegar þau rændu um 270 kristnum stúlkum, en margar þeirra (og úr öðrum ránum) eru seldar í kynlífsþrælkun.

Í fyrra voru enn um 100 stúlkur sem ekkert er vitað um. Átök þessi fara að mestu leyti fram í norð-austurhluta Nígeríu og samkvæmt gögnum frá Sameinuðu þjóðunum er talið að allt að 350.000 manns hafi fallið frá árinu 2009.

Eþíópía: Tigray-hérað vill sjálfstæði

Árið 2020 brutust út átök í Eþíópíu á milli stjórnarhers landsins og frelsishreyfingar Tigray-héraðsins, sem er nyrst í Eþíópíu. Deilur á svæðinu höfðu þó staðið mun lengur.

Inn í þessi átök blandast einnig aðilar frá Eritreu, sem liggur að Eþíópíu og er álíka stórt og Ísland. Talið er að þúsundir manna hafi fallið nú þegar í þessum átökum og sagt er að nánast allir stríðsaðilar hafi gert sig seka um alvarleg mannréttindabrot.

Malí: Rússar komnir inn í spilið

Enn eitt Afríkuríkið, Malí, stendur í styrjöld, en á undanförnum árum hefur stjórnarher landsins verið að berjast við uppreisnarhópa í norðurhluta landsins og margir þessara hópa hafa tengsl við hin alræmdu Al-Kaída samtök, sem undir stjórn Osama Bin Laden, breyttu heiminum með árásunum á Tvíburaturnana í New York árið 2001. Bandaríkjamenn myrtu Bin Laden árið 2011.

Þessir hópar vilja stofna sjálfstætt ríki á svæði sem kallast Azawad. Stjórnarher Malí hefur meðal annars notið stuðnings frá Frökkum, en fleiri þjóðir hafa líka sent hermenn til Malí, meðal annars Svíar og samtök sem kallast Ecowas, sem er bandalag ríkja í Vestur-Afríku.

Fyrir skömmu gáfu Svíar það út að þeir væru að draga sína hermenn til baka frá Malí. Ástæða þess er m.a. sú að talið er að hermenn frá rússneskum málaliðahópi sem kallast Wagner-hópurinn eru farnir að hreiðra um sig í Malí. Þessi hópur hefur yfir sér dularfulla ásýnd og margt er enn ekki vitað um hann, eða hvort yfir höfuð er hægt að kalla þetta fyrirbæri ,,Wagner-hópinn“, við leyfum okkur þó það hér.

Aðilar honum tengdum eru taldir fyrst hafa birst í Úkraínu árið 2014 og við innlimun Krím-skagans af Rússum það árið. Hugmyndir eru uppi um viss tengsl við ráðamenn í Kreml, en það er þó ekki fullvíst.

Þjóðarmorð gegn Róhingjum í Myanmar

Undanfarin ár hefur verið í gangi það sem kallað er ,,þjóðarmorð“  (e. genocide) gegn hópi sem kallast Róhingjar í landinu Myanmar (fyrrum Burma) í Suð-austur Asíu. Það er stjórnarher Myanmar sem stendur fyrir ofsóknum gegn Róhingjum, sem eru múslimar.

Átökin eiga sér í raun áratuga rætur, en Myanmar hefur verið eitt lokaðasta og sérkennilegasta ríki veraldar undanfarin ár. Herinn hefur þar gríðarleg völd og hefur í raun stjórnað landinu.

Talið er að minnsta kosti um 25.000 manns hafi látið lífið í þessum þjóðernishreinsunum og um 800.000 þúsund manns eru á flótta og hafa verið hrakin frá heimkynnum sínum.

Mannréttindasamtökin Amnesty International ákváð árið 2018 að svipta mannréttindafrömuðinn Aung San Suu Kyi, þáverandi leiðtoga landsins, æðstu viðurkenningu samtakanna, vegna meints afskiptaleysis hennar af málinu. Segja má að hún sé fallin af sínum stalli.

Fleiri átök um víðan völl

Í umfjöllun þessari mætti nefna fleiri átök sem geisa, með mismiklum krafti þó og í mismunandi formi.

Í umfjöllun þessari mætti nefna fleiri átök sem geisa, með mismiklum krafti þó og í mismunandi formi. Slíkt dæmi er deila kjarnorkuveldanna Indlands og Pakistan um Kashmír, eiturlyfjastríð í Mexíkó, sífelldar deilur Ísraelsmanna og Palestínumanna, pólitískur óstöðugleiki í Venesúela og Mið-Afríkulýðveldinu.

Þá má nefna mikla spennu á milli Kína og Bandaríkjamanna á S-Kínahafi og stöðugar deilur Kína og Tævan. Að lokum mætti nefna ögranir Kim Jong Un í N-Kóreu, en hann sendir reglulega eldflaugar til flugs, þær fara gjarnan yfir Japan og lenda svo einhvers staðar í Japanshafi. Svona minnir Kim á tilveru sína frá höfuðborginni Pyonyang.

En nú beinast augu allra að Úkraínu og þess stríðs sem Vladimír Pútín setti í gang af fullum krafti með innrás rússneska hersins  inn í landið í lok febrúar.

Það hefur nú þegar valdið ólýsanlegum hörmungum, flóttamannavanda og gríðarlegri spennu í alþjóðakerfinu.

Hrun Júgóslavíu

Leiðtoga Serba, Slobodan Milosevic (1941-2006) dreymdi um stór-Serbíu.

Árásarstríð af þessu tagi hefur ekki sést í Evrópu síðan borgarastríð hófst í Júgóslavíu árið 1991, þegar Serbar réðust inn í Slóveníu og síðar Króatíu.

Þá liðaðist sambandsríkið Júgoslavía í sundur í stríði sem einkenndist af skefjalausri þjóðernishyggju og gríðarlegum þjóðernisfordómum.

Í júlí árið 1995 voru framin mestu fjöldamorð frá lokum seinni heimsstyrjaldar, þegar Bosníu-Serbar drápu um 8000 múslimska karlmenn við bæinn Srebrenica í Bosníu.

Leiðtoga Serba, Slobodan Milosevic (1941-2006) dreymdi um stór-Serbíu og sótti meðal annars hugmyndir til réttlætingar á aðgerðum sínum til atburða sem gerðust árið 1389, þar sem Serbar og Tyrkir (Ottómanar) áttust við á stað sem nú tilheyrir Kosovo, Kosovo Polje, kallað ,,Svartþrastarvellir“ á íslensku.

Réttlæting Pútíns

Vladimír Pútín sækir einnig hugmyndir til réttlætingar á sínum aðgerðum langt aftur í tímann, meðal annars þeirrar hugmyndar að Úkraína hafi í raun aldrei verið til sem ríki og að leiðtogar landsins séu bara gengi af nasistum. Hvernig er það hægt þegar forsetinn, Zelenskí, er af gyðingaættum?

Pútín hefur sagt að Úkraína hafi ógnað Rússlandi, hann vill ,,afvopna“ Úkraínu og ,,af-nasistavæða“, en Úkraínu hefur aldrei verið stjórnað af nasistum og mun vonandi aldrei verða. Það eru til hægri-öfgamenn í Úkraínu, rétt eins og mörgum öðrum löndum Evrópu, Svíþjóð, Danmörku, Frakklandi og fleirum. En þeir eru bæði í raun fámennir og áhrifalausir.

Þriðja ríki Adolfs Hitlers var stjórnað af nasistum frá 1933-1945 og allir vita hvernig það fór. Gegn því börðust Rússar og Úkraínumenn saman undir nafni Sovétríkjanna og guldu fyrir með mannfalli upp á um 25 milljónir manna. Báðar þessar þjóðir eiga skilið betra ástand en ríkir nú, þar sem einn maður fer í raun í stríð gegn þjóð sem hann hefur fjálglega skilgreint sem ,,bræðraþjóð“. Stundum eru alþjóðastjórnmál verulega torskilin.

Nokkrar staðreyndir um Úkraínu og Rússland:

Fólksfjöldi Rússlands er um þrisvar sinnum meiri en Úkraínu eða um 146 milljónir Rússa gegn 44 milljónum Úkraínumanna.

Höfuðborg Úkraínu, Kíev, er stundum kölluð Kænugarður á íslensku og sögð vera ,,móðir“ Rússlands.

Margt bendir til þess að norrænir víkingar hafi verið með fyrstu íbúum Kíev á níundu öld.

Volodymír Zelenskí, forseti Úkraínu, er af gyðingaættum og starfaði sem grínleikari áður en hann varð forseti.

Áður en Vladimír Pútín varð forseti Rússlands árið 2000 starfaði hann sem lágt settur KGB-maður í þáverandi Austur-Þýskalandi. KGB var leyniþjónusta Sovétríkjanna.

Úkraína er um 600.000 ferkílómetrar að stærð, Rússland er rúmlega 17,1 milljónir ferkílómetrar.

Úkraína lýsti yfir sjálfstæði 1.desember 1991 í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem 91% íbúanna samþykkti sjálfstæði.

Þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, Úkraínumaðurinn Nikíta Krústsjov ,,gaf“ Úkraínu Krímskaga árið 1954, en þá hafði Úkraína verið 300 ár sem hluti af heimsveldi Rússa.

Um 17% íbúa Úkraínu eru Rússar að uppruna.

Stærsta flugvél heims, Antonov 225, var smíðuð í Úkraínu, en fréttir herma að Rússar hafi nú eyðilagt hana. Hún kom hingað til lands árið 2014 og kallaðist ,,Draumurinn“ (Mriya).

Alvarlegasta kjarnorkuslys sögunnar varð í Chernobyl-kjarnorkuverinu í Úkraínu árið 1986.  

Fastaher Úkraínu telur um 225.000 manns, en Rússlands um ein milljón manna.

Ein og hálf milljón Úkraínumanna eru á flótta vegna stríðsins.

Úkraínska og rússneska eru að mörgu leyti áþekk tungumál, en talið er að Úkraínumenn eigi betra með að skilja rússnesku en Rússar úkraínsku.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: