- Advertisement -

Annar hluti: Vaðlaheiðargöng borga sig sjálf / Tveir plús tveir verða aldrei fimm

Ólöf Nordal:
„Tveir plús tveir verða aldrei fimm, sama hvað þú reyn­ir að reikna.“

Ólöf heitin Nordal var gagnrýnin á gerð Vaðlaheiðarganga. Þegar hún var innanríkisráðherra, og þar á meðal samgönguráðherra, sagði hún æi viðtali við mig: „Við þing­­menn Sjálf­­stæð­is­­flokks­ins greidd­um at­­kvæði gegn þess­­ari fram­­kvæmd á síð­asta kjör­tíma­bili. Við höf­um haft áhyggj­ur af þessu frá upp­­hafi. Tveir plús tveir verða aldrei fimm, sama hvað þú reyn­ir að reikna.“

Þetta var ekki alveg rétt. Kristján Þór Júlíusson og Tryggvi Þór Herbertsson, sem voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sögðu já við ríkisábyrgðinni á láni til framkvæmdanna. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði við mig í Sprengisandi  að hann gerði ráð fyrir að ríkisábyrgðin myndi öll falla á ríkissjóð.

Sú er raunin.

Steingrímur J. Sigfússon:
„…mun standa undir sér og borga sig sjálf.“
Mynd: Hringbraut.

Steingrímur J. Sigfússon var á bleiku skýi: „Þetta er þrátt fyrir allt gríðarlega mikilvæg framkvæmd, þetta er góð framkvæmd þjóðhagslega, umhverfislega, hvað varðar umferðaröryggi og marga fleiri þætti í byggða- og atvinnulegu tilliti, hún mun standa undir sér og borga sig sjálf.“

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, í útvarpsþættinum Sprengisandi í janúar 2012. Hann var viss í sinni sök. Þá þegar voru uppi efasemdir um framkvæmdina. „Ég lít því svo á að sönnunarbyrðin hvíli á þeim sem ætla allt í einu núna, þegar við erum komin með tilboð í verkefnið vel undir kostnaðaráætlun, að segja nei, nei, nú hættum við við, þetta er allt í plati. Þá er búið að hafa menn að fíflum hér árum saman, sem hafa í góðri trú undirbúið þetta verkefni og fengið hvert skref fyrir sig samþykkt á Alþingi,“ sagði Steingrímur í viðtalinu.

Ríkið lánaði félaginu 8,7 milljarða 2012 og 4,7 milljarða í fyrra. Aðspurður hvort hann útilokaði á þessu stigi, að ríkið legði Vaðlaheiðargöngum hf. til frekara lánsfé sagði Bjarni: „Ég held að það sé svo langt í frá að vera sjálfsagt mál, að ríkið leggi félaginu til frekara lánsfé. Alveg sérstaklega finnst mér það ekki koma til greina að gera það til þess að félagið standi undir kröfum sem eru umdeildar.“

Það var Benedikt Jóhannesson, þáverandi formaður Viðreisnar, fjármálaráðherra og þingmaður Norðausturkjördæmis, sem ákvað að lána 4,7 milljarða króna.

Hér er hægt að lesa eldri fréttaskýringu um Vaðlaheiðargöngin.

Í þriðja kafla verður fjallað um iðjuverið á Bakka við Húsavík.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: