- Advertisement -

Mögnuð spenna

Gunnar Smári skrifar:

NYTimes er varkárt og hefur enn ekki tilgreint sigurvegara í átta fylkjum. Staðan er sú að Biden er með 227 kjörmenn og Trump 213. Þau átta fylki sem eru eftir hafa 98 kjörmenn.

Trump sneri þessum fylkjum 2016.

Þau átta fylki sem eru eftir eru: Alaska, Nevada, Arizona, Georgia, Norður Karólína, Wisconsin, Michigan og Pennsylvania. Trump fékk kjörmenn allra þessara fylkja 2016 nema Nevada. Svo á NYTimes eftir að úthuta einum af kjörmönnum Maine, við skulum setja hann á Trump (Biden fékk hina þrjá).
Ef við eigum að spá er líklegra að Biden nái Nevada og Arizona og Trump Alaska, Georgiu og Norður Karólínu. Ef þetta verður niðurstaðan yrði staðan sú að Biden væri með 244 kjörmenn en Trump með 248.
Sem sagt æði jafnt áður en kemur að þremur fylkjum í ryðbeltinu fyrir norðan; Wisconsin, Michigan og Pennsylvania. Trump sneri þessum fylkjum 2016, sem höfðu kosið demókrata alla tíð frá því að Clinton vann Bush 1992. Og það er einmitt sá sigur sem var kjarninn í gagnrýni á demókrata, að þeir hefðu gleymt verkalýðnum sem hafði orðið undir alþjóðavæddum kapítalisma og hrakið hann í fang popúlista. Svipuð gagnrýni og má hafa uppi gagnvart breska Verkamannaflokknum eftir kosningarnar 2019, þegar afstaða flokksins gagnvart Brexit fældi verkamannafylgi norðurhéraðanna frá og allt til Boris Johnson og eða Nigel Farage.

Í Wisconsin á aðeins eftir að telja 102 þúsund atkvæði þegar þetta er skrifað. Biden er með tæplega 21 þúsund atkvæðum meira (49,5%). Trump er með 48,8% af þeim atkvæðum sem hafa verið talin og þyrfti þá að fá þrjú atkvæði fyrir hver tvö sem Biden fær af þeim atkvæðum sem eftir eru til að sigra fylkið. Ekki veit ég hvar ótalin atkvæði liggja, það má vel vera að það séu í kjördæmum þar sem Trump er sterkur. En séð frá löngu færi er líklegra að Biden fái þá 10 kjörmenn sem Wisconsin hefur upp á að bjóða. Staðan væri þá orðin 254 handa Biden og 248 handa Trump.

Þar á eftir að telja um 1,5 milljón atkvæða.

Í Michigan á eftir að telja um 452 þúsund atkvæði þegar þetta er skrifað. Biden er með 31 þúsund fleiri atkvæði (49,5%) og ef Trump, sem er nú með 48,9%, á að geta snúið þessu við þarf hann að fá um 53,5% af þeim atkvæðum eru ótalin. Og hann verður að gera það ef hann á ekki að tapa kosningunum því ef Biden nær Michigan þá er hann kominn með 270 kjörmenn og búinn að vinna kosningarnar áður en kemur að Pennsylvaniu. Til að halda spennu, skulum við því ímynda okkur að Trump taki Michigan og staðan sé 254 kjörmenn handa Biden en 264 handa Trump áður en kemur að Pennsylvaniu.

Þar á eftir að telja um 1,5 milljón atkvæða. Trump er með forystu, 53,8% og um 505 þúsund fleiri atkvæði en Biden, sem er með 44,9% af því sem talið hefur verið. Til að vinna Pennsylvaniu þarf Biden því að fá tvö atkvæði fyrir hvert sem Trump fær af ótöldum atkvæðum. Sem fyrr kann ég ekki að meta hvaðan þessi atkvæði koma og hvernig þau kunni að skiptast, en þetta er æði mikil sveifla. Það er því líklegra að Trump vinni Pennsylvaniu, svona séð úr fjarska. Og ef hann gerir það er hann búin að vinna með 284 kjörmenn.

Til að halda spennu skulum við því bakka aðeins. Láta Trump halda Pennsylvaniu og Biden Wisconsin en bíða með niðurstöðuna í Michigan. Þá er staðan sú að Biden er með 254 kjörmenn og Trump 268 áður en kemur að úthlutun 16 kjörmanna Michigan. Þar munu úrslitin ráðast, hvorugur má við því að tapa Michigan (eins og staðan er nú).


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: