- Advertisement -

Hér losa menn sig við skattrannsóknarstjóra sem ónáðar elítuna

Siðað samfélag verður að halda eftirförinni áfram, fram í rauðan dauðann.

Ragnar Önundarson skrifaði:

Í Bretlandi og Danmörku eru það lög að fólk þurfi að gera grein fyrir uppruna auðæfa sinna. Ef auðsöfnun verður ekki skýrð af framtölum manna, þá er brugðist við. Hér losa menn sig við skattrannsóknarstjóra sem ónáðar elítuna með dugnaði sínum. Hér tala menn bara í hring eftir hring um skattsvik, þau halda því bara áfram og áfram. Við eigum að hafa slíka löggjöf. Hér kemur ábending um leið sem gæti gefið góðan árangur, ef unnið er markvisst að henni:

Skattframtöl eru nú rafræn. Tekjur framteljenda koma að miklu leyti rafrænt inn. Mismunur tekna og gjalda er nefndur hagnaður. Hann leggst við eigið fé (hreina eign) fyrra tímabils. Í tilviki einstaklinga er það framfærslukostnaðurinn sem dregst frá tekjum, til eru opinberar tölur um hann. Þannig er unnt að mæla „hagnað“ hvers framteljanda með þokkalegri nákvæmni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nú vill svo til að einnig eignir og skuldir og þar með líka mismunur eigna og skulda, hin hreina eign, koma rafrænt inn. Sem fyrr sagði er hækkun hreinnar eignar = hagnaður. Því má bera þá tölu saman við þann hagnað sem fæst þegar framfærslukostnaður er dreginn frá tekjum. Ef verulegur mismunur er á hagnaði skv. þessum tveimur aðferðum þarf að senda málið í skattrannsókn.

Framtíðin gæti svo verið sú að álagður skattur verði hið hærra, þ.e. skv. framtöldum tekjum eða skv. aukningu hreinnar eignar að viðbættum framfærslukostnaði. Framteljandi eigi samt alltaf kost á að „leggja spilin á borðið“ og verða endanlega skattlagður með hefðbundnum hætti.

Ábending: það er ekki gilt sjónarmið gegn þessari hugmynd að „skattsvikararnir finni alltaf leið til að koma sér undan skattgreiðslum“. Það er uppgjöf. Siðað samfélag verður að halda eftirförinni áfram, fram í rauðan dauðann.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: