- Advertisement -

Hlutdeildarlánin eru EKKI vaxtalaus

Ávöxtun ríkisins er mun öruggari og betri en ávöxtun borgarans sem fjárfestir á móti ríkinu.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Hlutdeildarlán eru ekki lán í þeim skilningi.  Þau eru framlag ríkisins til kaupa þess á eignarhlut á móti borgara sem er að kaupa sér húsnæði. Það er því fjárfesting ríkisins í húsnæði á móti borgaranum. Ríkið sleppur hins vegar við að greiða allan kostnað af húsnæðinu, svo sem viðhaldskostnað og fasteignagjöld, þrátt fyrir að eiga í reynd allt að 20% í húsnæðinu. Svo kjánalegt sem það er, þá gæti ríkið hagnast af því að borgarinn sem á í þessum viðskiptum með ríkinu, myndi fara í framframkvæmdir sem ykju verðmæti eignarinnar.

Að segja þessi „lán“, þ.e. fjárfestingu ríkisins, vera vaxtalaus er síðan líka rangt.  Vextir/ávöxtunin ræðst af því hvernig húsnæðisverð þróast. Ávöxtun ríkisins er mun öruggari og betri en ávöxtun borgarans sem fjárfestir á móti ríkinu. Borgarinn þarf að greiða vexti af lánum sínum, fasteignagjöld og viðhaldskostnað og hafi hann tekið verðtryggt lán, þá leggjast verðbætur ofan á höfuðstól eftirstöðvanna. Gleymum því ekki að „[e]ndurgreiðslufjárhæðin nemur sama hlutfalli af söluverði íbúðarhúsnæðis við endurgreiðslu og upphafleg lánveiting nam af kaupverði.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Miðað við heilbrigðan fasteignamarkað, þá mun fasteignaverð hækka og með hækkandi fasteignaverði hækkar endurgreiðslufjárhæð hlutdeildarlánsins. Sú hækkun vinnur gegn hækkun á eigin fé borgarans í eigninni. Sá sem kaupir eign á 30 m.kr. og leggur 7.5 m.kr. í eigið fé nýtur óskipt góðs af hækkandi fasteignaverði. Fái sá hinn sami 6 m.kr. frá ríkinu, þarf að greiða ríkinu 20% af söluverðinu til baka. Sé hækkunin 5 m.kr., hækkar hlutur ríkisins um 1 m.kr., 2 m.kr. hækki verð eignarinnar um 10 m.kr., o.s.frv. Þessi fjárhæð, hver sem hún verður, dregst frá arðsemi borgarans (eða eykur á tap hans). Það getur vel verið að hún standi ekki undir ávöxtunarkröfu ríkisins, en þetta er ígildi vaxtagreiðslu og því eru hlutdeildarlánin EKKI vaxtalaus.

 Greinin birtist fyrst á Faebooksíðu Marinós.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: