- Advertisement -

Hvaða kerfisbreytingar eru nauðsynlegar í framhaldi af Samherja-málinu?

Þannig má koma öllum afrakstri af íslenskri starfsemi í skattaskjól og greiða ekkert til íslenska samfélagsins.

 Haukur Arnþórsson skrifaði eftirfarandi:

Ég var á fundi með hagfræðingi í gær. Hann er sérfróður um skattaskjól og peningaþvætti. Ef ég skildi hann rétt þá sagði hann mikilvægast að viðbrögð við þeim atburðum sem nú hafa gerst verði: (i) Að skýrt auðlindaákvæði verði komið í stjórnarskrá sem eyddi ölum vafa um eignarhald auðlinda og að eigandinn ætti kröfu um allan arð af þeim, (ii) að krefja öll félög sem hefðu starfsemi á Íslandi um skráningu og upplýsingagjöf um starfsemi sína, (iii) að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu og (iv) að sjá til þess að eigendur félaga tækju ekki arð af starfsemi hlutafélaga sinna inn í einkahlutafélag í eigin eigu.

(i) Mikilvægi auðlindaákvæðis verður ekki ofmetið. Það er lagalegur grundvöllur þess að kröfur þjóðarinnar um allan arð af auðlindinni renni til hennar. Atburðirnir kalla á þessa kröfu. Hins vegar telur sá sem þetta ritað atburðina ekki kalla á kröfu um „nýja stjórnarskrá“ af því að hún er málinu í sjálfu sér óviðkomandi og hún sameinar ekki almenning í kröfum sínum um aðgerðir því 50% þjóðarinnar er á móti upptöku „nýju stjórnarskrárinnar“). Því er réttast að leggja áherslu á auðlindaákvæðið eitt og sér.

Alþingi hefur stundum sett lög á einum degi.

(ii) Krafan um að krefja öll félög sem hafa starfsemi á Íslandi – hvar sem þau eru staðsett – um skráningu og upplýsingagjöf um málefni sín og þá ekki síst fjárhag, er einföld en skýr. Sérfræðingurinn sagði auðvelt að stofna félag í skattaskjóli (kannski á Kayman-eyjum) sem á félag í Lúxemborg sem svo aftur á félag á Íslandi sem hefur starfsemi hér og má starfa hér samkvæmt EES-reglum. Þannig má koma öllum afrakstri af íslenskri starfsemi í skattaskjól og greiða ekkert til íslenska samfélagsins. Með skráningu og upplýsingagjöf væri auðvelt að sjá við þessu og skattleggja alla þessa starfsemi hvar sem hagnaður hennar kemur fram. Alþingi hefur stundum sett lög á einum degi (þótt það sé ekki til fyrirmyndar) af minna tilefni. Það gæti jafnvel gefið sér viku, sem er áskilinn málsmeðferðartími frumvarpa fyrir þinginu.

(iii) Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu snúast fyrst og fremst um úthlutunina og útreikninga á auðlindarentu. Sérfræðingurinn taldi að úthlutunin þyrfti að eiga sér stað á markaði af einhverju tagi og til takmarkaðs tíma. En hann sagði auðvelt að reikna út auðlindarentu af sjávarútvegi sem tæki tillit til árferðis í greininni, s.s. söluvers afurða og gerði grein fyrir henni. Mig minnir að formúla hans sé: Heildarverðmæti selds fiskjar – (heildarrekstrarkostnaður útgerðar, fiskvinnslu og sölu + eðlilegar afskriftir af búnaði og skipum).

Þessi arður hefur verið tekinn úr hlutafélögunum sem annast útgerðina og fiskvinnsluna.

Í sjálfu sér takast hér á ólík sjónarmið um úthlutun og útreikninga af arðsemi því margir hagfræðingar telja uppboð á aflaheimildum gefa besta raun en ekki útreikningar. Við uppboð er mestur þrýstingur á útgerðirnar að gæta hagkvæmni í rekstri. Hins vegar kemur á móti að þær þurfa að verja sig fyrir sveiflum í greininni, bæði vegna mismikils afla og ólíks verðs á mörkuðum.

En útreikningsleiðin hefur þann kost að hægt er að bregðast við lækkandi söluverði án þess að útgerðin borgi það. En hætt er við að hún þrýsti ekki eins á útgerðir að gæta hagkvæmni, sá sem þetta skrifar telur að útgerð og fiskvinnslu megi vera alveg sama um hagkvæmni yfirleitt í slíku kerfi.

(iv) Ein af þeim aðferðum sem eigendur hlutafélaga nota er að láta hagnað koma fram í einkahlutafélögum sem þeir eiga einir eða með eiginkonum sínum. Þannig eiga nokkrir útgerðarmenn tugi milljarða í einkahlutafélögum. Þessi arður hefur verið tekinn úr hlutafélögunum sem annast útgerðina og fiskvinnsluna. Ég skildi það svo að þetta hefði áhrif á „afkomu greinarinnar“ sem er núverandi (og mögulega framtíðar-) grundvöllur veiðigjaldsins.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: