- Advertisement -

Hvorki Halldór Benjamín eða Sólveig Anna eru aðalpersónur hér heldur verkafólkið

Þeir samningar sem SA gerði nýverið eru nú þegar gengisfallnir vegna óráðsíuhagstjórnar ríkisstjórnar okkar og vaxtahækkana Seðlabankans.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifaði:

Það eru öllum mikil vonbrigði að ekki náðust samningar á milli SA og Eflingar. Halldór Benjamín virðist tregur til að sætta sig við það að fólk á vinnumarkaði er ekki allt í einu stéttarfélagi sem hægt er að ráðskast með og geti möglunarlaust samið fyrir allar vinnandi manneskjur. Það er einfaldlega ekki þannig. Þeir samningar sem SA gerði nýverið eru nú þegar gengisfallnir vegna óráðsíuhagstjórnar ríkisstjórnar okkar og vaxtahækkana Seðlabankans. Með réttu ættu verkalýðsfélög þau er sömdu við SA að höfða mál og láta reyna á að ógilda nýlega samninga sem eru nú einskis virði. Þau félög voru höfð að fíflum.

Það leikur sér enginn að því að fara í verkföll og allra síst láglaunafólk sem sjaldnast á feita sjóði til að sækja í.

Steinunn Ólína:

Ef Efling nær engri kjarabót fyrir sitt fólk mun það hafa lamandi áhrif á aðra aðila á vinnumarkaði til að berjast fyrir bættun kjörum sem þeir þurfa svo sannarlega að gera.

Verkfallssjóðir bjarga einhverju en ekki öllu og láglaunafólk sem dregur fram lífið á lágum launum fórnar miklu til að standa með sjálfu sér og vinnufélögum sínum í verkföllum. Þar kemur líka til ótti um að verða refsað fyrir það að fara í verkfall, að vinnuveitandi muni segja þér upp þegar tækifæri gefst og ráða fremur byrjanda á enn lægri launum til að losna við óþægilega manneskju sem hefur þor til að fara í verkfall.

Láglaunafólk sem fer í verkföll rekur heimili eins og við flest og kannski er ekki stuðningur frá maka til að halda út það að fara í verkfall. Margar láglaunakonur búa eflaust við það að vera í sambúð þar sem þær eru háðar því að maki skaffi líka til heimilis svo endar nái saman. Og ekki er víst að það séu allt sambúðir sem þoli álag sem hefst af tekjutapi annars aðila. Og hversu margar konur eru í sambúð sem er óásættanleg af einhverjum sökum en geta ekki slitið þeim vegna afkomuótta?

Hvorki Halldór Benjamín eða Sólveig Anna eru aðalpersónur hér heldur verkafólkið sem er að færa persónulegar fórnir og taka persónulegar áhættur í baráttu fyrir skárri kjörum og örlítið meiri sjálfsvirðingu fyrir sig og sína félaga.

Ef verkfall leysist með einhverskonar ávinningi Eflingarfólks mun það auðvitað hafa með sér áframhaldandi ólgu á vinnumarkaði enda töluvert verk að vinna að rétta af þann launamismun sem er orðinn í landinu. Ef Efling nær engri kjarabót fyrir sitt fólk mun það hafa lamandi áhrif á aðra aðila á vinnumarkaði til að berjast fyrir bættun kjörum sem þeir þurfa svo sannarlega að gera. Eða er ekki svo, kennarar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar?

Þetta fólk er að drýgja hetjudáð fyrir alla sem þurfa að semja um bætt kjör á vinnumarkaði og þau eiga skilyrðislausan stuðning okkar og aðdáun skilið.

Stórfyrirtæki þau sem nú munu súpa seyðið af verkföllum eru samt í talsvert annari stöðu því þar er háskinn fyrst og fremst fjárhagslegur og engum í bisness finnst gaman að tapa peningum. En skaðinn er ekki persónulegur. Fyrirtækin þurfa í raun engu að kvíða því SA stendur þétt við bakið á þeim og peningastefna Seðlabankans og ríkisstjórnin eins og hún leggur sig.

Sú áhætta sem Eflingarfólk tekur nú er aðdáunarverð og persónuleg. Þetta fólk er að drýgja hetjudáð fyrir alla sem þurfa að semja um bætt kjör á vinnumarkaði og þau eiga skilyrðislausan stuðning okkar og aðdáun skilið.

Greinina birti Steinunn á Facebook.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: