- Advertisement -

Í boði Heima er bezt: Skúli fógeti; við öl var hann órór og orðhákur hinn mesti

…glens allt og léttúð var honum fjarri skapi.

„Að ytri ásýndum bar Skúli Magnússon eigi mjög af öðrum samtíðarmönnum sínum, en nokkuð hafði hann við sig, það er ósjálfrátt vakti athygli manna og eftirtekt, svo flestum varð starsýnt á hann í fyrstu. Hann var með hærri meðalmönnum á vöxt, réttvaxinn, sívalur og hvelft brjóstið, handsmár og vellimaður, kvikur mjög í öllum hreyfingum, skinnræstinn og hörundsbjartur, toginleitur og bólugrafinn mjög, varamikill og þó eigi munnljótur, fráneygur og svarteygur, svipmikill og stórhöfðingleitur og svipurinn nokkuð áhyggjufullur. Hann var flestum mönnum hvellrómaðri, en seinmæltur og var sem hann biti á vörina, er hann talaði. Enginn var hann sérlegur burðamaður, en þolinn, þrautseigur og heilsugóður. Varð honum því nær aldrei misdægurt fyrri en nokkuð á efstu árum sínum, og má það furða heita um mann, er átti jafn erfiða og ónæðiSsama ævi. Viðhafnar- og skartmaður var hann að sönnu, þótt eigi bærist hann mikið á hversdagslega hvorki í klæðaburði né öðru. Hann var maður hreinlátur og reglufastur og hinn kurteisasti i látbragði, en þó fráleitur í öllu látæði og affarasniði. Hann var meðallagi glaðlyndur og heldur fálátur og þögull hversdagslega, en þó veitingasamur, einkum við vini sína, og örlátur og rausnarlegur i öllum tillögum og útlátum. Þegar vinir hans tóku hann tali, var hann ræðinn og skemmtilegur, og gat þá oft verið bæði gamanyrtur og gagnyrtur, og jafnvel stundum meinyrtur, er svo bar undir, en glens allt og léttúð var honum fjarri skapi.

„Hann var erfiðissamur í mesta lagi, svo hann gat varla iðjulaus verið“.

Eigi mátti Skúli heita lærður maður, en hann unni lærdómi og listum og mat mikils þá menn, er báru af öðrum í þeim efnum. Er það eitt meðal annars, er bendir til þess, hve mikill menntavinur hann var, að hann átti rúm 1300 bindi af bókum ýmislegs efnis og á ýmsum tungumálum, og má það mikið kalla á þeim dögum. Sálargáfur hafði hann miklar og góðar, var skarpvitur og svo athugull og framsýnn, að hann var af mörgum talinn forspár. Með aldrinum aflaði hann sér allmikillar þekkingar í ýmsum greinum, eftir því sem honum gáfust föng á í annríki sínu og erfiði. Í lögum var hann einkar vel að sér og bar gott skyn á stjórnarmálefni. Þótt mörgum kunni undarlegt að þykja, var hann mest gefinn fyrir að lesa guðfræðisbækur, einkum trúfræðisbækur eða biblíuskýringar, og er það mál manna, þeirra er ritað hafa um hann, að hann hafi verið maður einkar trúhneigður eða eðlisfari. Heldur þótti Skúli jafnan uppstökkur og reiðigjarn, en stillti þó allvel orðum sínum, er hann var ódrukkinn og var ei uppnæmur fyrir, þótt hann væri borinn ýmsum sökum. En við öl var hann órór og orðhákur hinn mesti, er því var að skipta og var þá stundum laus höndin, því geðið var afar mikið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Skúli var maður hugprúður mjög og kunni eigi að hræðast.

Öllum samtíðarmönnum Skúla ber saman um, að hann haf i verið manna iðjusamastur og hamhleypa hin mesta, og jafnvel fjandmenn hans láta hann njóta sannmælis í því efni. „Hann var erfiðissamur í mesta lagi, svo hann gat varla iðjulaus verið“, segir Magnús sýslumaður Ketilsson um hann. Þarf varla að taka þetta fram, því líf hans allt ber það með sér, að elja hans og starfsþrek hefur hlotið að vera framúrskarandi, og munu fáir Íslendingar hafa jafnazt á við hann í þeim efnum, að undanskildum þeim nöfnum Jóni Eirikssyni og Jóni Sigurðssyni.

Skúli var maður bæði handhagur og sjónhagur og sagði sjálfur fyrir verkum um byggingar allar og mannvirki, er hann var við riðinn, enda hafði hann og hina mestu unun af því. Útsjónar- og framkvæmdarsamur þótti hann og í búnaði og verkstjórn, og kom það ljósast fram, er hann bjó á ökrum og var umsjónarmaður Hólastóls.

Skúli var maður hugprúður mjög og kunni eigi að hræðast. Kom það þráfaldlega fram, en aldrei ljósar en tvisvar i utanferðum hans. Hreppti hann hafvillur og storma og átti með snarræði sínu og kjarki mestan og beztan þátt í að bjarga bæði skipi og mönnum.“

Tilboð Heima er bezt:

Þau sem kaupa áskrift n´æsta árs fá síðustu tilboð þessa árs frítt. Sendið póst á sme@sme.is.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: