- Advertisement -

Í hvernig samfélagi viljum við búa?

„En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:

Viljum við búa í samfélagi þar sem við leggjum okkar af mörkum í þeirri vitneskju að þrátt fyrir að vera ólík um ótrúlega margt erum við sammála um grundvallarhugmyndir, grunngildi, það sem við byggjum samfélagið á: Enginn líður skort, börnin eru það mikilvægasta sem við eigum og öll börn eru jafn mikilvæg, gamalt fólk fær að lifa með reisn og upplifir virðingu og þakklæti samborgara sinna vegna þess sem það hefur lagt af mörkum, þau sem ekki geta unnið eru ekki látin gjalda þess, og vinnandi fólk fær greitt verð fyrir vinnuafl sitt sem endurspeglar grundvallarmikilvægi þess í verðmætasköpun þjóðfélagsins.

Eða viljum við búa í samfélagi þar sem að margir líða skort, þar sem sum börn vita frá unga aldri að þau geta aldrei fengið það sem önnur börn líta á sem sjálfsagða hluti og þurfa að upplifa skömmina og depurðina sem því fylgir, þar sem að gamalt fólk lifir sínar síðustu stundir á fjársveltum stofnunum þar sem útkeyrðar konur þurfa að hlaupa sífellt hraðar til að halda öllu gangandi, þar sem stór hópur verka og láglaunafólks er aldrei frjáls undan fjárhagsáhyggjum, sama hve mikið stritað er.

En hvað á þessi friður að kosta?

Ég held að flest okkar vilji lifa í samfélagi sem byggir á samþykki um óumdeilanlegan rétt fólks til að njóta þess að vera manneskja. Við sem komin erum til vits og ára vitum auðvitað að mannleg tilvera er óútreiknanleg og að því sem næst allt getur gerst. En einmitt þess vegna eigum við, fullorðið fólk með ábyrgðarkennd, skynsemi og samhyggð að sameinast í því að berjast fyrir því að samfélagið okkar sé eins gott og það getur verið. Við eigum ekki að samþykkja að vegna þess að sumt fólk virðist aldrei fá nóg eigi aðrir að fá miklu minna en nóg. Við eigum ekki að samþykkja að velsæld útvalinna sé á kostnað þeirra sem að efnahagsleg og pólitísk valdastétt hefur ákveðið að alltaf megi sparka í.

Forsætisráðherra talar um frið á vinnumarkaði og hversu ákjósanlegur hann sé fyrir samfélagið. Það er auðvitað alþekkt að meðlimir valdastéttarinnar vilja frið þar sem þau stjórna. En hvað á þessi friður að kosta? Á hann að kosta að þau sem með vinnu sinni tryggja öðrum vellystingar en búa sjálf við bág kjör sýna friðsemd með því að niðurlægja sig? Á hann að kosta að hin eignalausu samþykkja að eignastéttin megi arðræna þau hvar og hvenær sem er? Á hann að kosta að ómenntaðar verkakonur sjá lífslíkur sínar minnka? Á hann að kosta að börn hinna eignalausu vita að þeirra bíða sömu áhyggjurnar og þau sjá foreldra sína rogast með ár eftir ár, við það að sligast?

Friður sem þýðir að þau sem minnst eiga og verst hafa það eiga að sætta sig við að vera alltaf aftast í röðinni þegar útdeila skal af efnahagslegum gæðum þjóðfélagsins er ekki friður, heldur kúgun. Það er augljóst og öll eiga að sjá sóma sinn í að viðurkenna það.

…viljum virkilega taka þátt í því að viðhalda efnahagslegri kúgun…

Ætlum við að samþykkja slíka kúgun, af þeirri ástæðu einni að áframhald hennar hentar þeim sem troðið hafa sér efst í stigveldið? Það ætla ég allavega ekki að gera. Félagsfólk Eflingar, þau sem með vinnu sinni halda höfuðborgarsvæðinu uppi, á betra skilið en innantómt tal um friðsemd, notað til að breiða yfir ömurlegheitin og ruglið sem fá að viðgangast óáreitt ár eftir ár eftir ár í þeirra garð. Vitneskja okkar um grundvallarmikilvægi vinnuafls okkar er algjör. Og við munum ekki sætta okkur við eitthvað óásættanlegt til að yfirstéttin geti haldið áfram að orna sér við falskan frið á okkar kostnað.

Bráðum rennur fæðingarhátíð frelsarans í garð. Hann hefur verið kallaður Friðarprinsinn. En sannleikurinn er sá að hann kaus frekar ófrið en að leyfa valdastéttinni að kúga fólk. Ég hvet okkur til að skoða samfélagið okkar með gagnrýnum augum, hugsa um hvaða gildi við aðhylltumst, hvort að við viljum virkilega taka þátt í því að viðhalda efnahagslegri kúgun valdastéttarinnar í garð láglaunafólks og fjölskyldna þeirra eða hvort að við ætlum að standa saman í að berjast fyrir réttlæti og sanngirni, samhygð og samvinnu?

Ég óska ykkur gleðilegs þriðja í aðventu. Ég vona að ykkur gangi vel að tendra hirðakertið, tileinkað hinum fátæku og ómenntuðu fjárhirðum sem fyrstir heyrðu fagnaðarerindið um fæðingu frelsarans. Og ég vona að ég og félagar mínir í Eflingu fáum stuðning ykkar í okkar grafalvarlegu og lífsnauðsynlegu réttlætisbaráttu. Við munum sannarlega þurfa á honum að halda.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: