- Advertisement -

Jafnrétti styrkir stöðu fyrirtækja

Vinnumarkaður Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins telur að fyrirtækjum geti verið mikill hagur í því að fá formlega jafnlaunavottun, enda styrki það stöðu þeirra í samkeppninni um hæfasta starfsfólkið. Í viðtali við vefritið Arbeidsliv i Norden hvetur hann atvinnurekendur annar staðar á Norðurlöndum til að taka upp jafnlaunastaðal sambærilegan þeim sem þróaður hefur verið hér á landi. Þetta kemur fram á vef velferðarráðuneytisns.

Nýjasta tölublað Arbeidsliv i Norden er tileinkað Íslandi en ritstjórn blaðsins og blaðamenn komu til landsins í tengslum við norræna ráðstefnu sem haldin var í Hörpu í tilefni 60 ára afmælis samnorræns vinnumarkaðar. Í leiðara blaðsins er vitnað í orð Christian Kastrop, framkvæmdastjóra skrifstofu stefnumótunarfræða hjá OECD sem telur eftirtektarvert hve Íslendingar hafi verið fljótir að ná sér á strik í kjölfar efnahagshrunsins. Í blaðinu er meðal annars rætt við Christian um norræna velferðarmódelið og framtíð þess. Einnig er þar fjallað um íslensku velferðarvaktina, vinnumarkaðsaðgerðir og ýmis átaksverkefni fyrir atvinnuleitendur á liðnum árum og sitthvað fleira.

Í vefritinu Arbetsliv i Norden er fjallað um jafnréttismál og launajafnrétti kynja í viðtali við Þorstein Víglundsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins þar sem hann er sérstaklega spurður um innleiðingu jafnlaunastaðals og jafnlaunavottun. Sagt er frá því hvernig staðið var að þróun jafnlaunastaðalsins af hálfu velferðarráðuneytisins og aðila vinnumarkaðarins með aðkomu fleiri aðila undir handleiðslu Staðlaráðs Íslands. Í viðtalinu segir Þorsteinn augljóst að fyrirtæki hafi hag af því að geta sýnt fram á með vottun óháðs aðila að þau uppfylli skilyrði jafnlaunastaðalsins, það styrki stöðu þeirra í samkeppninni um hæfasta starfsfólkið. Þorsteinn telur líklegt að fyrirtæki muni nýta sér jafnlaunastaðalinn, sérstaklega þau stærri og telur raunhæft að meira en helmingur af 3–4.000 stærstu fyrirtækjunum muni sækjast eftir jafnlaunavottun. Hann hvetur jafnframt aðila vinnumarkaðarins annars staðar á Norðurlöndunum til þess að nýta sér þá vinnu sem fram hefur farið á Íslandi og taka upp jafnlaunastaðal sambærilegan þeim sem þróaður hefur verið hér á landi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: