- Advertisement -

Kemur þyngra niður á fátæka en ríka

Í fyrsta lagi er tilhneiging til þess að almenningur borgi fyrir opinbera þjónustu, en fái hana ekki gjaldfrítt.

Haukur Arnþórsson skrifar:

„Þess hefur gætt í auknum mæli að í lögum sé orðað með almennum hætti hvað geti fallið undir gjaldtökuheimild… „Í þessu sambandi vakna ekki bara spurningar um hvaða kostnaður geti í raun fallið undir þjónustugjaldaheimildina heldur líka hvaða möguleika [gjaldendur] hafa til að leggja mat á það hvernig kostnaður við þá „þjónustu“ […] er fundinn og hvernig hann samrýmist gjaldtökuheimildinni,“ [segir í ársskýrslu Umboðsmanns Alþingis].“ (Þetta er tilvitnun í Viðskiptablaðið).

Í fyrsta lagi er tilhneiging til þess að almenningur borgi fyrir opinbera þjónustu, en fái hana ekki gjaldfrítt. Þetta er í stóru og smáu – en stærsta dæmið er ef samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu og til og frá því verða kostaðar með þessu móti. Megin rökin gegn almennri gjaldtöku ríkisins er að gjaldtakan er mjög mismunandi íþyngjandi, eftir því hvað miklu almenningur hefur úr að spila. Hún kemur þyngra niður á fátæka en ríka, jafnvel mjög mikið þyngra (eins og samgöngugjöld myndu gera). Á meðan er eitt helsta hlutverk ríkisins að halda uppi jöfnuði í þjóðfélaginu – og hér eru stjórnvöld að vinna gegn því – bæði með flötum gjöldum fyrir opinbera þjónustu og með því að hafa ekki hátekjuskatt og eðlilegt (norrænt) stighækkandi skattkerfi.

Í öðru lagi eiga gjöld einvörðungu að mæta kostnaði við þá þjónustu sem veitt er. Það virðist vanta þrengri skilgreiningu á þessu – því opinberar stofnanir eru farnar að taka reglulegan rekstrarkostnað stofnana inn í slík þjónustugjöld – og segja þá að ef stofnunin væri ekki rekin væri ekki hægt að veita þjónustuna. Þó sú röksemd sé rétt er hún útúrsnúningur – því munurinn á gjöldum og sköttum sá að gjöld eru einvörðungu fyrir kostnaði við veitta þjónustu – skv. íslenskum lögum og ESB-reglum – sem í þessum tilvikum eru brotnar. En skattar standa undir almennum rekstri ríkisins og eiga að kosta allan meginrekstur hins opinbera og þjónustu þess.

Í þriðja laga hafa opinberar stofnanir notað upplýsingatæknina til að auka tekjur sínar. Þegar skráningar opinberra stofnana voru handgerðar eða vélritaðar voru þær til afnota fyrir stofnunina eina – og notendur gátu fengið afrit gegn greiðslu fyrir ljósritunina (eins og vera ber), en ljósritunin er aukaviðvik. Við tölvuvæðinguna sparaði hið opinbera allt að 10% af mannskap sínum með sjálfvirkum rafrænum skráningum. En stofnanir létu ekki þar við sitja. Þær hófu að gjaldfæra fyrir rafræn afrit á vefnum – sem almenningur er í raun réttu búinn að greiða fyrir. Ekki bara það, heldur eru vefir stofnana gerðir til að veita starfsfólkinu þjónustu eigin stofnunar þannig að ekkert aukaviðvik er veitt við að almenningur fái sömu þjónustu. Það sló í brýnu út af þessu varðandi Lagasafnið þegar það var tölvuvætt – milli Alþingis og Dómsmálaráðuneytisins, það var 1995 og Alþingi hafði betur og Lagasafnið er ókeypis á netinu – en mjög algengt er að gögn frá framkvæmdarvaldinu kosti á netinu, stundum einstök gögn og þá samkvæmt gjaldskrá eða að áskrift er að slíkri þjónustu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: