- Advertisement -

Láglaunafólk var gabbað

Hagsmunir þess felast í alþjóðlegri samvinnu – og sósíalistar eru alþjóðasinnar – enda þekkir verkalýðsbaráttan engin landamæri.

Haukur Arnþórsson:
„Þjóðernishyggjan, sem leitt hefur hinar mestu hörmungar og endalaus stríð yfir Evrópu í gegnum aldirnar – er ekki í hag láglaunafólks.“

Haukur Arnþórsson skrifar um hagsmuni láglaunafólks og EES samninginn. Það lítur út fyrir að grafa eigi undan EES samningnum hér á landi í því skyni að óvandaðir stjórnmálamenn fái atkvæði þjóðernissinna – með því að vinna gegn 3ja orkupakkanum, sem í raun hefur engin áhrif hér á landi sem 1. og 2. orkupakkinn höfðu ekki. Við skulum líta á hvar hagsmunir láglaunafólks liggja í málinu.

Skoðum Bretland. Þar stendur láglaunafólk frammi fyrir því að „silfurskeiðungar“ Íhaldsflokksins, þingmennirnir sem sóttu dýru einkaskólana – standi fyrir „ómenguðu“ Brexit, sem þýðir að Bretland fer út samningslaust – og hvetji til þjóðernishyggju og haturs á ESB (sérstaklega á Þjóðverjum og Frökkum).

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er smátt og smátt að renna upp fyrir stuðningsmönnum Verkamannaflokksins hverjir munu borga fyrir útgönguna. Hún mun þýða minnkaðan kaupmátt og aukið atvinnuleysi – og mikið rétt – ekki hjá silfurskeiðungum heldur hjá almenningi. Láglaunafólki. Minnkaðar þjóðartekjur þýða líka niðurskurð í velferðar- og heilbrigðiskerfunum. Ekki bitnar það á yfirstéttinni sem er á einkastofnunum ef heilsan bilar.

Það er því fleirum og fleirum að verða ljóst að láglaunafólk var gabbað með bellibrögðum á félagsmiðlum og með falsfréttum til þess að styðja Brexit. Þjóðernishyggjan, sem leitt hefur hinar mestu hörmungar og endalaus stríð yfir Evrópu í gegnum aldirnar – er ekki í hag láglaunafólks. Hagsmunir þess felast í alþjóðlegri samvinnu – og sósíalistar eru alþjóðasinnar – enda þekkir verkalýðsbaráttan engin landamæri.

Hið sama gildir um íslenskt verkafólk. Hagsmunir þess, kaupmáttur launa þess, atvinnuöryggi þess og gæði í velferðarkerfinu (heilbrigðismál og félagsmál) eru háð því að við höfum frjáls og tollalaus milliríkjaviðskipti. Í þessu efni getum við talað um þjóðarhag.

Hitt er svo annað mál að sósíalistar styðja út af fyrir sig ekki markaðsfyrirmælin sem eru í 1., 2. og 3. orkupökkunum. En í þessu efni verðum við að taka meiri hagsmuni fyrir minni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: