Í símamálinu hefur Flokkur fólksins ættleitt mesta ruslið frá Framsókn og árangurinn verður enginn. Sem er synd.
Ragnar Þór Pétursson.
Ragnar Þór Pétursson skrifaði þessa grein:
Nú, þegar ég er sestur til að skrifa umsögn um nýjasta útspil Guðmundur Ingi Kristinsson og ráðuneytis hans verður mér sífellt betur ljóst hve hræðilegt það er að stjórn menntamála virðist vera komin í hendur fólks sem hefur sáralitla eða enga þekkingu eða innsýn í menntakerfið. Ráðherra er ekki einn um slíkan skort. Ráðuneytisstjóri og lykilstarfsmenn eru ekki síður að stórum hluta fólk sem alls ekki þekkir þann málaflokk sem verið er að stjórna. Reynslumikið fólk virðist ekki stýra för en nóg er af því í ráðuneytinu. Ráðherrann virðist búa í loftbólu.
Símabann er eitt dæmi. Það byrjaði sem gæluverkefni nokkurra Framsóknarmanna á sveitarstjórnarstigi. Það kemur úr svipuðum ranni og fíkniefnalaust Ísland árið 2000 og lausn húsnæðisvandans með aukinni lántöku. Það hefur skort mjög á það hjá mörgum í þeim flokki að standast einföld töfraráð á flóknum vanda. Það á þó við hvorugan ráðherrann sem stýrði menntamálum fyrir þann flokk. Þetta er fyrst og fremst sveitastjórnarmál þar sem flokkurinn hefur verið misheppinn með fólk.
Það er lítil sem engin eftirspurn eftir samræmdum símareglum í skólum. Það eru aðallega nokkrir kjarklitlir stjórnmálamenn sem vilja að ráðuneytið gerist „vondi kallinn“ til þess að þurfa ekki að standa fyrir svörum sjálfir. Í skólum þar sem fólk vill banna síma eru þeir bannaðir og það er ekkert vandamál við það.
Þar var margt hæft fólk.
Stofnaður var starfshópur til að skoða málið. Ég var munstraður í hann. Þar var margt hæft fólk. Honum var að sjálfsögðu stýrt af innmúruðum Framsóknarmanni. Hópurinn reyndist fljótt annars eðlis en allir aðrir starfshópar vegna þess að í vinnunni sat hluti fulltrúa undir endalausum hótunum og dylgjum um að brjóta á stjórnarskrá og mannréttindum. Því var stöðugt hótað að ef niðurstaða yrði eitthvað annað en algert símabann yrði ráðist á hana opinberlega.
Þrátt fyrir einlægar og ítrekaðar tilraunir til að koma málum upp úr skotgröfum varð allt að einu, hótununum hefur aldrei linnt og starfshópurinn er í raun ónýtur og hefur verið um hríð.
Í stað þess að horfast í augu við þá stöðu fór þá formaður hópsins, hinn innmúraði Framsóknarmaður, að semja skýrsludrög sem aldrei voru afgreidd en hafa síðan verið notuð af ráðherra til að rökstyðja og réttlæta málið á öllum stigum. Þar með fór formaðurinn út fyrir hlutverk sitt og umboð og mörgu er haldið fram sem alls ekki er raunveruleg lýsing á því sem hópurinn hefur rætt eða er sammála um.
Þetta eru gjarnan fullyrðingar í hástigi eins og þær að hópurinn sé sammála um að snjalltæki eigi sér engan tilverurétt í afþreyingarskyni eða að samfélagsmiðlar eigi fortakslaust að vera bannaðir. Hópurinn hefur ekki komist að neinni slíkri niðurstöðu þótt formaður hans hafi skrifað það í drög að afurðum sem aldrei hafa verið afgreidd. Eðlileg umræða um að snjalltæki eigi að falla inn í faglegt starf er túlkað sem eitthvað allt annað en það er.
Ofan á þetta bætist að ráðherra hefur í tvígang gerst sekur um trúnaðarbrest gagnvart hinni faglegu vinnu og virðist ekki standast það að blaðra ef hljóðnema er otað að honum og segir þá bara það sem honum dettur í hug án tillits til þess hvort það er faglegt eða málefnalegt. Starfshópnum hefur verið gert það fyllilega ljóst að hann er til málamynda og hann á að misnota til að réttlæta fyrirfram ákveðna niðurstöðu.
Flokkur fólksins stendur allsber…
Flokkur fólksins stendur allsber uppi í byrjun þings með engin mál tilbúin í menntamálum. Til að reyna að hylja skömmina af því eru rifin upp mál sem eru engan veginn tilbúin en setið hafa í ráðuneytinu óhreyfð vegna þess að þau eru skemmd, gölluð eða (að mati ráðuneytisfólks sem veit sínu viti, ótæk) og þeim hent fram eins og verkefni ráðuneytisins sé bara að passa að hafa örugglega eitthvað inni í þinginu.
Ég var mjög gagnrýninn á ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hvítbók og þjóðarátak í læsi á sínum tíma. Allt sem ég sagði um það mál rættist.
Það er því sorglegt að þurfa að horfast í augu við það að menntamálaráðuneytið í dag er margfalt verra en það var þá, ráðherrann í raun vanhæfur og vinnubrögðin á pari við það sem rússneskir kollegar okkar lýsa úr sínu landi. Menntamálum hefur aldrei verið jafn illa stýrt og af jafn miklu virðingarleysi.
Í símamálinu hefur Flokkur fólksins ættleitt mesta ruslið frá Framsókn og árangurinn verður enginn. Sem er synd. Ef vandað hefði verið til verka hefði verið hægt að fá út úr hópnum frábærar og gagnlegar niðurstöður. Það er mjög hæft fólk í hópnum með mjög ólíkar en réttmætar hugmyndir.
Meðan þetta fíflarí fer fram er ekki verið að lyfta litla putta til að taka á stóru málunum og það verður ekki gert. Það er ekki hægt að ná nokkrum árangri þegar skipstjórinn þekkir hvorki mun á þorski og ýsu né Halamiðum og Faxaflóa.