- Advertisement -

Ljósmæðradeilan: Mótsagnir hjá ráðherranum og forstjóranum

„Ég hef beitt mér í þessu máli í gegnum forstjóra Landspítalans,“ segir ráðherra. „Landspítalinn er ekki aðili að þessari deilu,“ segir forstjórinn.

Túkun heilbrigðisráðherra og forstjóra Landspítalans á stöðunni í ljósmæðradeilunni er ólík. Samt vitnar ráðherrann til orða forstjórans.

„Þegar að óánægja þessara stétta með kjör sín er mjög mikil svo að uppsagnir hljótast af, að þá hljótum við að hafa áhyggjur en við höfum heyrt af ýmsum fleirum sem að hafa verið að velta fyrir sér uppsögn þannig að staðan er alvarleg að okkar mati,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld.

Fyrr í gær sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á Alþingi: „Ég hef verið fullvissuð um það af forstjóra Landspítalans að engu öryggi sé stefnt í uppnám á Landspítalanum enda umgangast ljósmæður vinnustað sinn af fullri ábyrgð.“

Í frétt Stöðvar 2 sagði: „Forstjóri Landspítalans er uggandi yfir þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp í kjaradeilu ljósmæðra við ríkið. Stærsti hluti þeirra ljósmæðra sem sagt hefur upp störfum, starfar hjá Landspítalanum.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svandís setti ofan í við Guðjón Brjánsson þingmann sem talaði um ótta fólks vegna stöðunnar í ljósmæðrafeilunni.

„Þannig er engin ástæða til þess, hvorki hjá háttvirtum þingmanni né öðrum, að kynda undir ugg eða óöryggi hjá foreldrum,“ sagði Svandís. Háttvirtur þingmaður nefndi að sú staða sem upp er komin ylli mögulega ugg og óöryggi hjá fjölskyldum,“ sagði hún.

„Landspítalinn er ekki aðili að þessari deilu en við berum ábyrgð á þeirri þjónustu sem er verið að veita og það sem við viljum gera er að hvetja samningsaðila til að leggja sig alla fram um að ná sáttum og samningum sem allra fyrst,“ sagði Páll í fyrrgreindri frétt.

Á Alþingi þann sama dag, það er í gær, sagði Svandís hins vegar: „Ég hef beitt mér í þessu máli í gegnum forstjóra Landspítalans til að freista þess að gera það sem hægt er þar til þess að bæta starfsumhverfi og mögulega vaktaumhverfi þessarar mikilvægu stéttar. Það hefur verið gert og því hefur verið spilað inn í þær kjaraviðræður sem nú eru í gangi. Ég vonast til þess að það verði til þess að hjálpa til við að leysa þessa viðkvæmu deilu.“

 

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: