- Advertisement -

Mikil vonbrigði með stjórnmálin

Arnar Þór Jónsson:

Stjórnmálamenn eiga að þjóna landsmönnum, hagsmunum íslenska lýðveldisins og vera trúir stjórnarskránni. Þeim er ekki ætlað að þjóna sjálfum sér, hvað þá erlendum ríkjum eða ríkjasamböndum, nema kjósendur hafi veitt þeim skýrt umboð til slíks. 

„Sem aðkomumaður / gestur í íslenskum stjórnmálum hef ég reynt skilja hvernig þau ganga fyrir sig og hvernig þessi „leikur“ er spilaður. Þetta hefur verið áhugaverð reynsla, sem um leið hefur valdið vonbrigðum.

Í gærkvöldi mætti ég konu á gangi í Þingholtunum sem spurði mig hvort ég hefði „metnað til að vinna á hinu pólitíska sviði.“ Ég svaraði í hreinskilni að eftir þáttinn hjá Agli Helgasyni sl. sunnudag væri ég nánast afhuga því. Ég vil segja það hér að Egill Helgason er að mínu áliti vel meinandi og góður maður. Hann réði þó illa við frammíköllin frá þeim stallsystrum úr systurflokkunum Viðreisn og Samfylkingu. Ef einhver nennir að horfa á þetta gæti verið áhugavert að greina framgöngu þeirra og málflutning í þættinum. Fyrir utan almenna óháttvísi fara þær með rangt mál, leggja viðmælendum sínum ítrekað orð í munn, gera öðrum upp skoðanir og láta eins og einn maður geti talað fyrir hönd heils flokks. Ef vel er hlustað má heyra aðra þeirra fussa af hneysklun yfir því að Íslendingar eigi val um að beita samningsbundnu neitunarvaldi gagnvart innleiðingu EES reglna. Hneykslunin er til marks um þá afstöðu að Ísland eigi ekki að vera annað en taglhnýtingur stórþjóða á meginlandinu og innleiða í okkar lög allt sem þaðan kemur.

Cui bono?

Þú gætir haft áhuga á þessum
Þau voru gestir Egils Helgasonar í Silfrinu á sunnudaginn: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn, Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu, Gunnar Smári Egilsson Sósíalistaflokki og Arnar þór Jónsson Sjálfstæðisflokki.

Fyrir hvern starfa þingmenn sem þannig tala? Eru slíkir þingmenn í þjónustu Íslendinga eða ESB? Ef frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 er til marks um að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé genginn í ESB liðið, þá er það mikið áhyggjuefni fyrir almenna kjósendur þess flokks sem kusu flokkinn vegna Sjálfstæðisstefnunnar. Sú staðreynd að aðrir ríkisstjórnarflokkar hafi hleypt frumvarpinu í gegnum þingflokksherbergi sín hlýtur með sama hætti að valda kjósendum þeirra áhyggjum, því hingað til hafa hvorki Framsókn né VG gefið sig út fyrir að vilja færa Ísland nær áhrifavaldi ESB. 

Stjórnmálamenn í skógarferð

Íslensk stjórnmál eru komin út í einhvern móa sem erfitt er að sjá menn rata út úr án þess að viðurkenna að þeir hafi óhreinkað sig. Eins og ég hef margoft skrifað í fyrri pistlum þarf hver og einn að spyrja sjálfan sig: ,,Hverjum er ég að þjóna?“

Stjórnmálamenn eiga að þjóna landsmönnum, hagsmunum íslenska lýðveldisins og vera trúir stjórnarskránni. Þeim er ekki ætlað að þjóna sjálfum sér, hvað þá erlendum ríkjum eða ríkjasamböndum, nema kjósendur hafi veitt þeim skýrt umboð til slíks. 

,,Sjálfan sig selur enginn nema með tapi“ (Sigurbjörn Einarsson biskup 1911-2008). 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: