- Advertisement -

„Misgengi sé á uppgjörsreglum Reykjavíkurborgar“

Vigdís Hauksdóttir.

„Það er mikilvægt að endurskoðunarnefnd hafi tekið upp og rætt um reikningsskil Félagsbústaða og að formaður endurskoðunarnefndar taki misgengi sé á uppgjörsreglum Reykjavíkurborgar málið upp við sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar,“ bókaði Vigdís Hauksdóttir í borgarráði.

„Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur margoft bent á óeðlilegt misgengi sé á uppgjörsreglum Reykjavíkurborgar í A-hlutanum annars vegar og Félagsbústaða hins vegar. Á meðan A-hlutinn er gerður upp samkvæmt kostnaðarverðsreglu og í samræmi við sveitarstjórnarlög og lög um ársreikninga eru reikningsskil Félagsbústaða gerð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Veigamestu frávik þeirra frá reikningsskilareglum sveitarfélaga eru að hluti varanlegra rekstrarfjármuna Félagsbústaða hefur verið endurmetinn til gangvirðis. Því hefur framsetning Félagsbústaða í samstæðuuppgjöri borgarinnar fegrað stöðuna því matbreyting fasteigna Félagsbústaða er færð gegnum rekstrarreikning. Það er löngu tímabært að endurskoða þá ákvörðun að miða reikningsskil Félagsbústaða við IFRS staðla og færa þau eins og A-hlutann samkvæmt kostnaðarverðsreglu. Stórfelld hækkun fasteignaverðs í Reykjavík og þar með talið eignasafns Félagsbústaða er „froða“ í uppgjöri Reykjavíkur því samkvæmt stefnu meirihlutans stendur ekki til að selja íbúðir Félagsbústaða. Þvert á móti er bætt við eignasafnið til að halda áfram þeirri stöðu sem Félagsbústaðir gegna í uppgjörinu. Því gefur þessi tvöfalda uppgjörsregla ekki glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu A-hluta og samstæðunnar í heild. Skuldir Félagsbústaða nema nú 45 milljörðum með óheyrilegum fjármagnskostnaði.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: