- Advertisement -

Mismunandi hliðar hljóðfærisins

Menning Á sýningunni Píanó, sem stendur yfir i Listasafni Íslands, er píanóið skoðað í samfélagi nútímans; sem hljóðfæri og tilraunavettvangur tónskálda en einnig sem viðfangsefni myndlistarmanna og danshöfunda. Listamennirnir skoða mismunandi hliðar hljóðfærisins og nýta í sköpun sína. Það birtist í formi skúlptúrs, formið er kannað, verkfræðin, hljóðgjafinn, efniviðurinn, umhverfið og háttalag. Farið er inn á svið gjörninga, leikhúss, tónverka og myndverka.

Píanóið hefur gegnt mörgum hlutverkum í tímans rás og á sér litríkan, sögulegan bakgrunn. Börn læra á hljóðfæri á unga aldri og eitt píanó getur átt sér sögu óteljandi puttaáslátta og þolinmæðistunda. Þannig myndast órjúfanleg tengsl tíma og hljóðfæris. Píanóið er dýrmætt; viðurinn, fílabeinið sem var, málmurinn, strengirnir og hamrarnir stinga í augu þegar horft er til vistkerfis náttúrunnar í dag. Gjörningar, þar sem píanó hefur verið algengt viðfangsefni eyðileggingar, vekja jafnvel ómeðvitað upp efasemdir um réttmæti sóunarinnar, því að hljóðfærið er táknrænt í allri sinni dýrð. Tákn um upphafningu mannsandans og hápunkt borgaralegs samfélags, snilligáfunnar, en á sama tíma einfaldleika laglínunnar og hljómanna, sem geta líka fangað hið tæknilega krefjandi út að mörkum mannlegrar getu. Á sama tíma getum við öll nálgast píanóið á mjög svo aðgengilegan hátt. Píanóið er í raun alls staðar í kringum okkur, við ýtum bara á takkann og tónninn krefst engra málalenginga.

Á sýningunni eru verk eftir Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, Björn Roth, Odd Roth og Einar Roth, Dieter Roth og Björn Roth, Einar Torfa Einarsson, Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur, Margréti Bjarnadóttur, Nikulás Stefán Nikulásson, Pál Ivan frá Eiðum og Rafael Pinho. Mörg verkin eru gerð sérstaklega fyrir sýninguna.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: