- Advertisement -

Mútur voru og mútur eru á Íslandi

Ekki láta okkur koma til hugar að hér sé ekki mútað.

Fyrir margt löngu sat ég vikum saman í dómssal. Þar var tekið fyrir eitt af kunnari sakamálum þjóðarinnar. Hafskipsmálið. Það voru göt í bókhaldinu. Það vantaði kvittanir og reikninga á móti greiðslum. Hvers vegna, var spurt.

Þetta eru mútur. Eða fyrirgreiðslufé eins og sumir vilja kalla mútur. Var svarið. Ekki einu sinni. Heldur aftur og aftur.

Ef manni er boðið svo og svo mikið fyrir að flytja viðskipti sín er ekki beðið um kvittun þegar samkomulag tekst. Efnislega voru svörin í þessa veru. Það er eins og mig minni að mútur hafi ekki verið refsiverðar þá. Það kanna að vera misminni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fyrir ekki svo löngu síðan var frétt um að drengjum í yngri flokki í körfubolta hafi verið mútað. Áttu að fá nýja síma ef þeir töpuðu næsta leik. Hagsmunirnir voru ekki meir en svo. Samt var mútað. Hið minnsta var reynt að múta.

Hvað þá þegar verulegir peningar eru undir. Eða hagsmunir. Eigum við að trúa að meginþorri Íslendinga trúi ekki að meðal okkar sé fólk, sennilega helst karlar, sem hið minnsta reyni ekki að múta öðrum til að ná sínum fram? Mútur voru og mútur eru.

Ekki láta okkur koma til hugar að hér sé ekki mútað. Með einum eða öðrum hætti. Með peningum, fyrirgreiðslu, störfum eða hverju öðru sem hefði ekki fengist nema vegna þess að viðkomandi naut persónulega „góðs“ af ákvörðun sinni eða gerðum. Fámennið vinnur gegn okkur. Hér er stutt á milli allra og alls kyns tengsl myndast. Og skuldbindingar.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: