- Advertisement -

Nýfrjálshyggjan kom ekki fyrr en 1991

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur skrifaði:

Ópólitískt fólk sem vildi eiga víðtæka möguleika í þjóðfélaginu gekk oftast í Sjálfstæðisflokkinn þegar ég var ungur. Heilu málaflokkarnir voru fullir af sjálfstæðismönnum, s.s. lögfræðingastéttin, dómsmála- og utanríkismálaráðuneytin og fjölmargar ríkisstofnanir – auk flestra stórfyrirtækja (þó ekki SÍS og kaupfélögin).

Þá var Sjálfstæðisflokkurinn stór og slagorðið „stétt með stétt“ hafði innihald. Flokkurinn aðhylltist ekki stífa hægri stefnu, hann leiddi sem helsti ríkisstjórnarflokkurinn lagasetningu á félagsmála-, heilbrigðis- og menntamálasviðunum (byggði upp samneysluna) og margir töluðu um hann sem norrænan sósíaldemókratískan flokk. Nýfrjálshyggjan kom ekki fyrr en 1991. Siðan hefur flokkurinn minnkað, norrænu gildin hafa smám saman vikið fyrir hægri stefnu.

Núna sýnist mér ungt fólk sem vill halda öllum möguleikum opnum og er ópólitískt vera utan flokka. Það er svo tilbúið að ganga í flokka á miðjunni ef það fær tilboð um að vera ofarlega á lista og fá þannig stökkpall inn í opinbera kerfið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Áslaug Arna leggur áherslu á hægri gildi – sem þýðir að hún mun halda áfram að minnka flokkinn og einangra hann í hægri stefnu. Hún nær ekki til hins almenna manns sem vill t.d. að fjármálafyrirtæki og Landsvirkjun séu í eigu ríkisins.

Guðrún Hafsteinsdóttir er meira á gömlu línunni – stétt með stétt, þ.e. leggur minni áherslu á hugsjónir en meiri á að sameina fleira fólk. En stíf hægri stefna og slagorðið stétt með stétt eru að nokkru leyti andstæður.

Þetta um hvert ópólitíska unga fólkið leitar er órannsökuð fullyrðing og nú gefst lesendum mínum gott tækifæri til að vera mér ósammála.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: