- Advertisement -

Nýjar fréttir af Neytendavaktinni: Okur eykur verðbólguna

- Marinó G. Njálsson gagnrýnir Haga af mikilli hörku. „...heldur vill fyrirtækið til viðbótar okra á bensíni og lyfjum.“

„Finnur Árnason, forstjóri Haga, viðurkennir að arðsemi Haga hafi verið 35-40% meðan sambærilegar verslanir í nágrannalöndum austan og vestan hafs skila 11-13% arðsemi. Ótrúleg græðgi sem neytendur greiða fyrir í háu vöruverði, launagreiðendur í hærri launum en ella, lántakar í hærri verðbótum, húsnæðiskaupendur í hærra húsnæðisverði og atvinnulífið í hærri vöxtum og sköttum, svo fátt eitt sé tiltekið. Höfum svo í huga, að VNV inniheldur ótrúlega marga vöruliði, sem fást í búðum Haga. Þetta okur hefur því áhrif á verðbólguna og peningastefnu Seðlabanka Íslands,“ skrifar Marinó G. Njálsson á Facebook.

Hagar verði brotnir upp

„En þessi arðsemi er ekki nóg, heldur vill fyrirtækið til viðbótar okra á bensíni og lyfjum. Hvað næst? Kominn er tími til að Samkeppniseftirlitið krefjist þess að fyrirtækið verði brotið upp svo hægt sé að koma á eðlilegri verðsamkeppni á neytendamarkaði.“

Marinó skrifar meira um arðsemina: „35-40% arðsemi bendir til verðstjórnunar á fákeppnismarkaði. Það getur verið, að verðinu sé ekki stjórnað í gegn um fundi í Öskjuhlíðinni eða með tölvupóstsamskiptum, en fyrirtæki, eins og Hagar, þurfa þess ekki. Þau verðleggja óþæga keppinauta út af markaðnum með einstaka vöruflokka til að koma þeim í skilning um hver ræður. Við sáum það í „mjólkurstríðinu“ um árið. Hagar voru að vísu sektaðir fyrir það, en auðvitað var þeirri sekt bara velt út í verðlagið.“

Hefur fjölþætt áhrif

„35-40% arðsemi Haga hefur áhrif út um allan dagvörumarkaðinn, vegna þess að núna dettur engum innlendum aðila í huga að reyna að vera ódýrari en Bónus. Gleymum því samt ekki, að þessi græðgi bjó til pláss fyrir Costco, þannig að fátt er svo með öllu illt.. og græðgin á til að springa framan í þann gráðuga. Ég held að kominn sé tími til, að eigendur Haga (og annarra dagvöruverslanakeðja) átti sig á því, að hógværð í arðsemi er þeim fyrir bestu.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: