- Advertisement -

Nýjar íslenskar þjóðsögur 1. hluti: Brennivín

Það var á Akureyri að maður, sem ekki gekk alveg heill til skógar, starfaði til margra ára við snúninga fyrir fyrirtæki í bænum. Hann sá um að fara í bankann, eins rukkaði hann og sá um fleiri snúninga.

Eitt sinn bað framkvæmdastjóri fyrirtækisins manninn að fara fyrir með peninga á trésmíðaverkstæði og borga fyrir sig timbur og skila því til smiðanna að setja timbrið fyrir utan, þar sem hann ætlaði að taka það með sér þegar hann færi heim.

Sendisveinninn hlustaði greinilega ekki nógu vel á það sem framkvæmdastjórinn sagði. Þrátt fyrir að hann væri ekki alveg viss um hvað hann átti að gera lét hann ekki á neinu bera og hélt af stað. Hann gekk að verslun Áfengisverslunarinnar. Þann dag var verslunin lokuð vegna verðbreytinga. Sendisveinninn var með samviskusamari mönnum og þar sem hann taldi sig eiga að fara í sendiferð í áfengisverslunina lét hann lokaða verslun ekki stöðva sig, heldur bankaði hraustlega.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eftir drykklanga stund opnaði verslunarstjórinn glugga á annarri hæð hússins og spurði sendisveininn hvaða erindi hann ætti. „Hann Stebbi bað mig að kaupa fyrir sig eina brennivínsflösku. Hann sendi mig með pening og bað mig að borga þér flöskuna. Þú átt að skilja hana eftir á tröppunum, þar sem hann ætlar að taka hana með sér þegar hann fer heim.“

(úr einfeldningasögum)

Ég skrifaði talsvert af nýjum íslenskum þjóðsögum í Pressuna fyrir nærri þrjátíu árum. Jón Óskar myndskreytti. Sögurnar verða endurbirtar hér, hver af annarri.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: