- Advertisement -

Ólíkt hafast Danir og Íslendingar að

…þá fær enginn annar að gera sér mat úr sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar.

Sigurjón Þórðarson skrifar:

Í Danmörku eins og víðast hvar í heiminum er rekinn ábatasamur sjávarútvegur, en eflaust kemur sú staðreynd ýmsum á óvart sem kokgleypir áróður SFS um að hvergi í heiminum sé rekin útgerð réttu megin við strikið annars staðar en á Íslandi.

Hvað sem því líður þá hafa Danir rétt eins og Íslendingar reglur um kvótaþak þ.e. að mörk séu á yfirráðum einstakra útgerða og tengdra aðila yfir úthlutuðum árlegum aflaheimildum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Stórútgerðarmaðurinn Henning Kjeldsens ákvað að fara á svig við reglurnar og skráði aflaheimildir á hina ýmsu leppa m.a. eiginkonu og fjölskyldumeðlimi, og var kominn langt upp úr þakinu. Daninn beitti því meira og minna sömu brellunum og Guðmundur í Brimi og Þorsteinn Már.

Ólíkt íslenskum stjórnvöldum þá brugðust þau dönsku við að farið væri á svig við lög og ákærðu Henning. Nú er dómur fallinn og er niðurstaðan sú að Henning þarf persónulega og fyrirtæki hans og aðrir þeir sem tóku þátt í lögbrotinu að greiða mörg hundruð milljóna króna sektargreiðslur og skila veiðiheimildunum.

Hér á Íslandi hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að setja sambærileg mál í nefnd og umræðan verið jafnvel á þá leið að gefa þeim sem hafa brotið lögin aðlögunartíma til þess að komast undir mörkin og fara að lögum um stjórn fiskveiða!

Mögulega gengur þessi hundalógík upp hjá íslenskum stjórnvöldum…

Fyrir nokkrum vikum þá birtist sú stórfrétt að Brim hefði komist undir lögbundið kvótaþak með þeirri aðgerð að aðaleigandi Brims hefði selt sjálfum sér hluta af aflaheimilda Brims og fært það inn í annað félag sem hann átti einnig. Mögulega gengur þessi hundalógík upp hjá íslenskum stjórnvöldum, en líklegast hvergi annars staðar í heiminum.

Tök örfárra stórútgerða á íslenskum stjórnvöldum eru orðin verulega vandræðalegur og birtist m.a. í sérstökum vigtarreglum, tvöfaldri verðmyndun sem opnar á lægri opinber gjöld og að drjúgur hluti af útflutningstekjum þjóðarinnar verða eftir í skattaskjólum og jú auðvitað vanmáttugum vettlingatökum sem virðast vera á rannsókn á alþjóðlegu fjármálaglæpum Samherja.

Það sem undirstrikar algeran undirlægjuhátt stjórnvalda er að þegar kvótaþegar sem fá árlega úthlutað veiðiheimildum í hinum ýmsu fisktegundum, á borð við ufsa, gulllax, blálöngu og úthafsrækju nenna ekki að veiða eða telja einhverra hluta ekki ástæða til að hefja veiðar, þá fær enginn annar að gera sér mat úr sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar.

Vegna þessa dekurs við örfáa tapar þjóðin gríðarlegum verðmætum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: