- Advertisement -

Ragnar minnir Guðmund á störf hans hjá Kaupþingi fyrir hrun

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skrifar opið bréf til Guðmundar Þ. Guðmundssonar landsþjálfara:

Hið nýja viðmið á íslenskum vinnumarkaði verði lífskjör á Filippseyjum og í austur Evrópu?

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handknattleik gagnrýnir framgöngu mína og verkalýðshreyfingarinnar harðlega í pistli og er stóryrtur í garð okkar sem reynum eftir fremsta megni að verja tilveru okkar félagsmanna, réttindi, lífskjör og framtíðarafkomu.

Til að útskýra tvö grundvallaratriði fyrir Guðmundi er þetta afstaða stjórnar VR, sem er 15 manna félagslega kjörin stjórn ásamt formanni, að formaður félagsins ákveður ekkert einn og óstuddur heldur tökum við ákvarðanir saman sem stjórn. 15 manna stjórn VR á síðan sæti í fulltrúaráði lífeyrissjóðsins okkar og er hlutverk okkar að vera stefnumótandi og skipa þau stjórnarsæti sem stofnsamningur sjóðsins kveður á um.

Hver viltu að hin nýju viðmið verði?

Í störfum þínum fyrir Kaupþing fyrir hrun ætti þér Guðmundur að vera ljóst hver ítök lífeyrissjóðanna voru í íslensku viðskiptalífi og hvernig þeim var kerfisbundið beitt fyrir ákveðnar viðskiptablokkir án afskipta verkalýðshreyfingarinnar.

Það veldur mér sárum vonbrigðum að þú skulir stíga fram fyrst núna og gagnrýna það að sjóðunum sé mögulega beitt og fyrir hverja, að verkalýðshreyfingin sé loksins tilbúinn til að ganga lengra en áður í að verja grundvallar réttindi og lífskjör almennings í landinu.

Eða ertu að segja að sökum þess að nú ríkir kreppa þá skuli stórfyrirtækin fá að leiða okkur óáreitt í gegnum enn eina niðursveifluna og í leiðinni brjóta niður þau réttindi og siðferðislegu viðmið sem tekið hefur áratugi að vinna upp?

Hver viltu að hin nýju viðmið verði?

Lífskjörin á Filippseyjum þar sem grundvallar réttindi eru fótum troðin? Eða starfsmannaleigur í austur Evrópu þar sem grunntrygging launa getur farið niður í 70 þúsund krónur á mánuði án nokkurra annara réttinda eins og orlof, veikindarétti og trygginga?

Ertu að leggja það til að hin nýju viðmið verði á forsendum fyrirtækjanna án aðkomu stéttarfélaga?

Allt í heilögu nafni endurreisnar og samkeppnishæfni.

Það er ekki að ástæðulausu að alþjóðasamtök lífeyrissjóða hafa tekið upp alþjóðleg viðmið sjálfbærra fjárfestinga.

Icelandair útvistar nú þegar störfum til Filippseyja og það fer gegn samþykktum LIVE um sjálfbærar fjárfestingar og siðferðisviðmið sem eru viðmið sem samin hafa verið og tekin upp af Sameinuðu þjóðunum og alþjóðasamtökum lífeyrissjóða.

Þetta mál er miklu stærra en Icelandair.

Þetta mál er miklu stærra en Icelandair.

Og ég er sammála þér um að við verðum að taka tillit til aðstæðna og stöðunnar sem komin er upp vegna Covid.

En það verður ekki gert með þeim hætti sem ofar er lýst. Við höfum bitra reynslu á síðasta hruni sem var fordæmalaust fyrir margra hluta sakir. Sú endurreisn var gerð á forsendum gerenda hrunsins með skelfilegum afleiðingum fyrir þúsundir heimila.

En ef ég má spyrja þig Guðmundur sem ert með áralanga reynslu í þjálfun og sem leikmaður í handbolta, hefur afrekað meira en flesta dreymir um að gera. Ert með réttu þjóðargersemi í augum okkar Íslendinga.

Ef þú værir þjálfari stórliðs í handbolta og hefðir lítið gert annað en að taka rangar ákvarðanir, áum saman, ekki unnið neitt þrátt fyrir öflugan leikmannahóp og aðgang að endalausu fjármagni til leikmannakaupa. Væri eðlileg krafa frá stuðningsmönnum liðsins að gerðar væru breytingar í brúnni?

Breytingar á stjórn og þjálfarateymi sem kæmu fram af fádæma hroka gagnvart leikmönnum og stuðningsmönnum?

Eða er þetta bara allt Covid að kenna?

Ég velti þessu fyrir mér í samhengi þess hvernig haldið hefur verið á málum gagnvart Boeing, breytingum á leiðakerfum, kaup félagsins á ríkisflugfélagi Grænhöfðaeyja, viðbrögð við samkeppni á einum mesta uppgangstíma flugsögunnar, klúðrið og spillingin í kringum Lindarvatn sem byggir hótelið á Landsímareitnum og svo ömurlega framkomu stjórnenda og yfirlýsingar í garð starfsfólks.

Við stöndum á tímamótum Guðmundur.

Og þá sorglegu staðreynd að litlar sem engar líkur eru á því að lífeyrissjóðir komi að fjárfestingu vegna framgöngu stjórnenda?

Auðvitað viljum að að félagið lifi þessar hremmingar af en staðan er mun flóknari vegna þess að þetta er orðið að máli alþjóðavæðingar.

Alþjóðavæðingar stórfyrirtækja sem drepa niður réttindabaráttu launafólks og brýtur niður samfélög.

Sem dæmi er talið að Apple greiði um 50 evrur í skatta af hverri milljón evrum sem það græðir og eitt stærsta fyrirtæki heims hefur ekki greitt skatta frá stofnun og í krafti stærðar sinnar og alþjóðavæðingar getur gert kröfur um gríðarlegar skattaívilnanir í skiptum fyrir það að koma með starfsemi sína á viðkvæm svæði og greiða laun sem duga ekki fyrir mat og húsnæði.

Þessi staða er miklu stærri og alvarlegri en Icelandair þó hún raungerist þar og hún er dauðans alvara. Félagsleg undirboð kosta mannslíf.

Við stöndum á tímamótum Guðmundur, tímamótum þar sem verkalýðshreyfingin verður að standa í lappirnar. Við getum ekki og munum ekki standa á hliðarlínunni eða sem áhorfendur eins gert var í síðasta hruni.

Við gerum kröfu um að endurreisnin fari fram með nýrri stjórn og þjálfarateymi, sem hlýtur að vera eðlileg krafa.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: