- Advertisement -

Sá sterkasti segir sem minnst

Viðhorf Inngangur að þættinum Sprengisandur á Bylgjunni frá því í morgun.

Kosningabaráttan er ansi furðuleg. Frambjóðendur virðast eiga miserfitt með að ákveða hvernig þeir eiga að haga sér. Meirihlutaflokkarnir í Reykjavík virðast kunna leikinn hvað best. Tökum Samfylkinguna í Reykjavík sem dæmi. Að óbreyttu vinnur Samfylkingin fínan sigur í borginni. Og hvar er Samfylkingin og frambjóðendur hennar? Eru þeir að tala um moskur eða ekki moskur, eru þeir að reita hár sitt þó Sjálfstæðismenn segi þá vilja fylla Laugardalinn af forljótum blokkum, tala þeir um flugvöllinn hér eða þar, eða eru frambjóðendur Samfylkingarinnar þátttakendur í þeim átökum sem fara fram á netinu eða annarsstaðar. Nei, og auðvitað ekki. Og hvers vegna? Jú, vegna þess að þeir þurfa þess ekki og vita að sá sem hefur sterkustu stöðuna, er í bestu málunum, þurfa bara að gæta sín á að segja sem minnst. Ruggar ekki bátnum, horfir á hina berjast um og gera hver mistökin af öðrum, segja of mikið, búa til átök innan eigin raða, efast hvert um annað og það allt saman, einsog dæmin sanna.

 

Og hafa gaman af

Á lokametrunum hafa verið fréttir um hvort Sjálfstæðisflokkur ætlaði að skipta út leiðtoga sínum, samskonar fréttir voru af Framsókn, held bara í gær, og á meðan  horfa Dagur og félagar á, og hafa eflaust gaman af.  Hlutverk þess sem er sterkastur er auðveldast, einkum þegar viðkomandi kann leikinn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og alltaf bætist við. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarmanna í Reykjavík, hefur vakið mikla athygli í kosningabaráttunni. Og þá fyrir sérstakar aðferðir. Nú er hún í stríði við Egil Helgason, sem er ekki í framboði og því er ekki hægt að skilja hvers vegna hún einbeitir sér ekki að þeim velli sem hennar leikur fer fram á, það er baráttan um sæti í borgarstjórn. Kannski er upplagið að fanga athyglina, hvernig sem það er svo gert. Ef svo er hefur henni tekist vel upp. Ég skil samt ekki þessa aðferð, held að hún stjórnist af örvæntingu ferkar en öðru.

Ég hef sagt áður og segi enn, ég skil ekki að nokkrum manni hafi dottið í hug að framtíð flugvallarins yrði hitamál að þessu sinni. Skil þetta bara ekki. Og ekki heldur þá sem halda að beygjuakrein á einni götu eða tveimur geti ráðið úrslitum. Ég heyrði unga sérfræðinga segja í útvarpi fyrir fáum dögum, að 41 prósent af því landi sem Skeifuhverfið er á, fari undir bílastæði. Hugsið ykkur þetta, 41 prósent bara undir bílastæði. Og svo hitt, hér tíðkast að einn maður ferðist milli borgarhverfa í nokkurra fermetra, jafnvel tveggja tonna bíl, sá þarf nokkurra fermetra bílastæði heima hjá sér, hann helgar sér aldeilis rými þegar hann ekur um göturnar, svo þarf hann bílastæði við vinnuna, við matvörubúðina, við bankann eða bara hvar sem hann fer um. Og í öllum tilvikum þarf laust rými fyrir aftan bílinn, fyrir framan hann og til beggja hliða. Má ekki gera tilraunir til að breyta þessu? Á ekki að ræða þetta? Hvernig á þetta að þróast? Eigum við að taka frá 50 prósent af borgarlandinu fyrir bílastæði? Er það framtíðin?

Vant að bíða

Ungt fólk, einkum það sem hefur búið í erlendum borgum, hugsar ekki svona. Það hefur vanist að bíða í umferð, hefur vanist því að oft er betra, ódýrara og fljótlegra að fara um gangandi eða hjólandi, en á bíl.

Skoðanakannanir sýna að unga fólkið hefur snúið baki við, til að mynda Sjálfstæðisflokknum, sem harðast hefur barist fyrir breiðstrætum og rúmum bílastæðum.

Og svo er það hin hliðin. Reykjavík er byggð á nesi. Hér er allt gert, allt sem hugsast getur, til að sem flest okkar eigi sem oftast erindi einna yst á nesið. Þar er miðborgin, þar sem þúsundir vinna, þar er stærsti vinnustaður landsins, Landspítalinn, tveir háskólar og ég veit ekki hvað og hvað. Og til að komast að og frá þarf breiðar götur, bílastæði og aftur bílastæði og ég veit ekki hvað og hvað.

Yngri kjósendur hljóta að vera hugsa um skólana, heilsugæsluna, skattana, hverfið sitt, umgengni og það sem það sér og gerir á hverjum degi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: