„Það á að hækka skatta og gjöld á akstur og ökutæki um rétt um 11 milljarða, 11.000 milljónir.“
Bergþór Ólason Miðflokki.
Alþingi Bergþór Ólason Miðflokki sagði á Alþingi í gær að fram hefði komið að auknar tekjur; „…af veiðigjaldi munu í engu ganga til samgönguframkvæmda á landsbyggðinni en það sem kannski vakti meiri athygli var að hæstvirtur fjármálaráðherra tilkynnti að á þessu haustþingi yrði lagt fram frumvarp sem hækkar skatta og gjöld á ökutæki um 7 milljarða umfram það sem fyrir er núna. Það hittist þannig á að þessa frumvarps er hvergi getið í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar,“ sagði Bergþór.
Hann sagði svo: „Ég verð að biðja um að það verði fenginn einhvern botn í það hvað hæstvirt ríkisstjórn ætlar sér að koma fram með mörg mál á þessu þingi sem ekki er getið í þingmálaskrá. Auðvitað er óþægilegt að það liggi fyrir í þingmálaskrá að það eigi að leggja fram frumvarp sem hækkar skatta og gjöld af ökutækjum um 7 milljarða. En það er heiðarlegt og rétt að gera það, sérstaklega í ljósi þess að það mál er forsenda þess að fjárlög haldi. Þannig að þetta verður að koma hér inn á næstu vikum og þá verður þetta væntanlega afgreitt með einhverjum viðlíka fruntaskap og hefð er orðin fyrir hér í þinginu.“
Berþór endaði ræðuna svona: „Það er auðvitað ekki boðlegt að ríkisstjórnin segi, bara svona hálfpartinn fyrir mistök — fjármálaráðherra sagði hér í gær í andsvari að það komi fram frumvarp upp á 7 milljarða gjaldahækkun sem hvergi hefur verið getið í þingmálaskrá. Þetta er ekki verklag sem tækt er og að í sömu andsvörum komi fram að öll sú umræða sem hér hverfðist um ráðstöfun aukinna veiðigjalda færi til uppbyggingar í samgöngum á landsbyggðinni. Það virðist allt fallið sömuleiðis því að það á að hækka skatta og gjöld á akstur og ökutæki um rétt um 11 milljarða, 11.000 milljónir á milli ára og veiðigjöldin um eina 8. En heildarútgjöldin vega- og samgöngumála, þau eru ekki að hækka í neinu samræmi við þessa auknu gjaldtöku sem þó hefur verið lofað að verði ráðstafað til þessara hluta.“