- Advertisement -

Skilgreina sjúklinga og hjúkrunarlið sem andstæðinga almenningshagsmuna

Gunnar Smári:

Bótakerfi fyrirtækja er orðið stærra en barnabótakerfið.

En einhverra hluta vegna kýs fólk stjórnmálafólk með svona stefnu aftur og aftur. Það er eins og mörgum sé náttúrlegt að standa með þeim sterka gegn hinum veika, kýs þá sem sparka fastast og oftast í þau sem síst geta varið sig.

Ég var inn í heilbrigðiskerfinu í dag. Ekkert hættulegt, aðeins dóttir mín í aðgerð sem hafði tafist í tvö ár vegna covíd og veikleikleika heilbrigðiskerfisins eftir langvarandi sveltistefnu, sem einkennist af því að fjárveitingavaldið skilgreinir sjúklinga og hjúkrunarlið sem andstæðinga almenningshagsmuna. Sem er náttúrlega sjúkleg afstaða, spillt og grimm, og algjörlega á skjön við afstöðu meginþorra fólks. En einhverra hluta vegna kýs fólk stjórnmálafólk með svona stefnu aftur og aftur. Það er eins og mörgum sé náttúrlegt að standa með þeim sterka gegn hinum veika, kýs þá sem sparka fastast og oftast í þau sem síst geta varið sig. Alla vega eru aðdáendur grimmdarfólksins nógu margir til að halda mannvonskunni við völd.

En hvað um það. Á heilum degi ræðir maður við marga, bæði sjúklinga og starfsfólk. Og óbeit á þessari stefnu stjórnvalda hreint og beint ósar frá fólki. Það fyrirlítur stjórnvöld fyrir að reka stefnu sem hættir lífi fólks, gerir stöðu hinna veiku enn verri og gengur þvert á vilja almennings. Bara til að hygla hinum fáu ríku með lágum sköttum. Og meira að segja ríkulegum endurgreiðslum úr skattkerfinu. Bótakerfi fyrirtækja er orðið stærra en barnabótakerfið. Á meðan sífellt minna er tekið af kvótagreifum og fjármagns- og fyrirtækjaeigendum er sífellt meira tekið af sjúklingum. Fólki svíður þetta og það fyrirlítur stjórnmálafólkið sem stendur fyrir þessu, ráðherra og alþingismenn.

En á sama tíma og þessi mynd af heilbrigðiskerfinu er skýr innan veggja þess er önnur mynd eiginlega enn skýrari; þakklæti sjúklinganna til starfsfólksins sem ætti auðvitað að stýra kerfinu frekar en mannvonskufólkið í ríkisstjórninni. Allir sem sinntu dóttur minni komu fram við hana af virðingu og umhyggju og lögðu sig fram um að bæta líðan hennar og heilsu. Og ég sá að þetta sama fólk sinna öðrum sjúklingum af sömu ást. Og sá þakklætið og traustið sem sjúklingarnir sýndu starfsfólkinu.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ég talaði í dag við fólk sem kom af bráðadeildinni eftir að hafa beðið þar í fjóra tíma og rúmlega það. Fárveikt.

Þið þekkið flest svar bandaríska fornleifafræðingsins Margaret Mead um hvar upphaf siðmenningarinnar sé að finna. Hún vísaði til lærbeins sem hafði fundist sem sýndi að það hafði brotnað en gróið aftur, augljóslega verið sett í spelkur. Siðmenningin byggir ekki á verkfærum og allra síst vopnum, sagði Mead, heldur umhyggjunni gagnvart þeim sem særast, veikjast eða eru varnarlausir. Þegar mannfélagið tók að sinna hinum veiku í stað þess að skilja þá eftir fyrir villdýrin að elta uppi og drepa, þá varð siðmenningin til.

Þarna í upphafinu voru auðvitað til menn sem fannst þetta tímasóun og veikja hjörðina. Og þeir hafa svo sem aldrei gefist upp á að halda þessu fram. Að í stað þess að sinna hinum fátæku og veiku ættum við að lyfta upp hinum auðugu, sterku og valdamiklu. Að við höfum ekki efni á siðmenningu.

Ég talaði í dag við fólk sem kom af bráðadeildinni eftir að hafa beðið þar í fjóra tíma og rúmlega það. Fárveikt. Og starfsfólkið var að berjast við að finna legupláss svo fólkið gæti legið inni yfir nóttina svo rannsaka mætti hvað væri að, hvers vegna það var svona veikt.

Svo er það andlitslaus grimmdin sem aldrei mætir á vettvang heldur boðar niðurskurð og sveltistefnu úr góðri fjarlægð, svo gerendurnir þurfi aldrei að verða vitni af grimmdarverkum sínum.

Inn á sjúkrastofnunum eru þetta hversdagsleg átök. Þetta eru þó sjálft eilífðar tökin um mennskuna og siðmenninguna. Annars vegar er ást og umhyggja starfsfólksins sem vill viðhalda siðmenningunni og styrkja mannfélagið. Svo er það andlitslaus grimmdin sem aldrei mætir á vettvang heldur boðar niðurskurð og sveltistefnu úr góðri fjarlægð, svo gerendurnir þurfi aldrei að verða vitni af grimmdarverkum sínum. Og þrátt fyrir ógnarafl ástarinnar og almennan og víðtækan stuðning almennings við kærleikann þá vinnur hatrið og illskan stórsigra á hverjum degi. Einhver er sendur heim án þess að fá hjálp. Líf annars er sett í hættu vegna þess að hann er ekki sendur í rannsókn. Þriðji líður kvalir á meðan hann bíður á endalausum biðlista. Og svo hætti einhver við að leita sér hjálpar af ótta við að taka pláss frá öðrum veikar. Og annar hafði ekki efni á að leysa út lyf. Og svo hætti einhver störfum vegna þess að það er ekki hjúkrunarfólki bjóðandi að neita fólki um aðhlynningu í stað þess að hjálpa því.

Það er margt gott í samfélagi okkar. En ástæða þess að hið góða fær ekki að blómstra og marka samfélagið er að það er líka margt illt í samfélagi okkar, fólk sem telur það mikilvægara að byggja upp auð hinna fáu en að viðhalda siðmenningunni eða búa til samfélag sem er gott öllum. Og það er margt sem bendir til að mannhatursfólkið sé að sigra.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: