- Advertisement -

Útivist eins og á dauðadeildinni vestra

Maturinn kom samt nokkrum mínútum síðar en þá kom refsingin í ljós því það var aftur pasta í matinn. Mauksoðin lasagne.

Magnús R. Einarsson skrifar:

Dagur þrjú. Það heitir “Yard time” í amerískum fangelsisdrömum. Í Bandaríkjunum fá fangar á dauðadeildum alltaf einn klukkutíma á sólarhring til að vera úti undir beru lofti. Sama einfalda system hefur verið tekið upp í sóttvarnarhúsum íslenska ríkisins, en ég er ekki samt viss hvort maður fær “yard time” hér á hverjum degi. Hvað um það ég sótti um klukkutíma útivist í morgun og fékk að fara út undir bert loft eftir hátíðlegt loforð um grímu, tveggja metra fjarlægð, handþvott og lofa að maður ætli hvorki í verslun né aðra þjónustu og alls ekki abbast upp á nokkra einustu persónu. Þegar ég var búinn að sverja eiðinn og kominn út af hótelinu þá tók það mig smástund að átta mig hvar ég væri nákvæmlega staddur. Það viðraði samt ágætlega og ég tók strikið niður í Kvosina. Það er ekki neinn smáræðis hellingur af hótelum, gistihúsum, rbnb í boði hér. Það er ljóst að það er hægt að taka á móti fleiri þúsundum, ef ekki tugþúsundum áður en allt fyllist. Það voru undarlega fáir á ferli og kyrrlátur morgun hér í borg óttans. Þessi borg hefur nú tekið nokkrum breytingum að undanförnu. Sumt gott, annað ekki eins og gengur. Sumt vandræðalegt eða í besta falli broslegt eins og Ampelmann á götuvitunum í Kvosinni.

Ampelmann er ættaður frá Austur Þýskalandi, en sumir hafa einmitt furðað sig á af hverju Íslendingar hafa fengið þessa einkennilega sjúklegu þrá til að taka upp stjórnunarstílinn frá því skrítna landi eftir að kórónufjandinn barst til hingað. Mig grunar grimmt að það sé eitthvað Þýskalandsblæti í gangi í höfuðstað íslendinga sem meðal annars birtist í litlu, grönnu, grænu og ódýru Brandenborgarhliði á Laugavegi. Á hliðinu er auglýst hverfi í borginni sem ég hef aldrei heyrt af áður; Vitahverfi. “Lighthouse Village, Creative Quarter” stendur efst á hliðinu. Þetta þótti mér merkilegt. Ég er borinn og barnfæddur Reykvíkingur en þetta Vitahverfi er nylunda fyrir mér. Held að þetta “hverfi” sé eitt af hugarfóstrum borgaryfirvalda til að gleðja kaupmenn við Laugaveg. Vitabarinn þekkti ég hins vegar nokkuð vel fyrir tveim þrem áratugum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Passar ágætlega málfræðilega, rímar ef til vill of mikið við sveskja.

Það var heilmikið stuð niður við Tjörn. Þar fylgdist ég með klassíkinni hjá fuglunum; slagsmál um fæðu og sex. Mér tókst að villast á bakaleiðinni í gengum Þingholtin enda annars hugar með texta á rípíti í hausnum, texta sem Laxness sauð upp úr stórskemmtilegu ljóði sem Karl Einarsson, öðru nafni Dunganon hafði látið hann hafa. Ég kom of seint úr “yard time”. Þegar hádegismaturinn var ekki kominn rétt undir hálf tvö þá varð ég aðeins paranoid og fór að gruna að nú væri verið að refsa mér fyrir of langa útivist. Maturinn kom samt nokkrum mínútum síðar en þá kom refsingin í ljós því það var aftur pasta í matinn. Mauksoðin lasagne. Það gerist vart verra og ég sem hafði látið mig dreyma um lambasteik, komon það er sunnudagur! Mér hefur verið sagt að þegar menn eru hafðir í einangrun þá skiptir maturinn eiginlega öllu máli bæði andlega og líkamlega, því maturinn er ekki bara öllum nauðsynlegur í prísundinni sem og annars staðar, hann er nánast eina gleðin sem ófrjálsum mönnum er hægt er að hafa. En ég vona að ég muni ekki fara að þjást af Stokkhólmseinkenninu sem gæti meðal annars orðið til þess að ég missi allt skyn á pöstu og fari að þykja hún best mauksoðin með ódýrum kjötkrafti og gúmmíosti. Ég slepp áður, vonandi snemma á næstkomandi þriðjudagsmorgun.

Maður er vissulega úr kontakt við samfélagið og þá veltast upp alls kyns hugleiðingar í einsemdinni. Það er til að mynda merkilegt að við íslenskumælandi fólk skulum eiga núna í vanda að finna orð yfir dýrategundina homo sapiens. Við sem eigum eitt flottasta og mest “lucid” tungumál í Evrópu ef ekki heiminum. Núna þykir ýmsum orðið maður ekki ná yfir konur, bara karla. Þjóðverjar nota männchen, englendingar people, ítalir gente osfrv. Manneskja ku ekki ganga vegna þess að þar er forliðurinn “mann”. Mannskepna er til og sömuleiðis mannkind, eins og í jólasálminum góða. Sem ég var að sofna í gærkvöld þá datt mér í hug það snjallræði að sleppa forliðnum “mann” og kalla okkar dýrategund “eskja”. Passar ágætlega málfræðilega, rímar ef til vill of mikið við sveskja. But so. Skepna er of hart og neikvætt gildishlaðið. Kind gæti alls ekki gengið fyrr en sauðfjárrækt hefur verið aflögð á Íslandi í nokkrar aldir. Gott orð samt; kind. Meira á morgun.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: