- Advertisement -

Skiptir máli hvaðan samkeppnin kemur?

Brynhildur Pétursdóttir, alþingismaður Bjartrar framtíðar og fyrrverandi ritstjóri Neytendablaðsins, skrifaði eftirfarandi grein:

Áhugi iðnaðarráðherra á bandarísku verslunarkeðjunni Costco vakti áhuga minn. Í fréttum sagði ráðherra að áform fyrirtækisins um að opna verslun á Íslandi gæti verið liður í að auka samkeppni og lækka vöruverð. Þá mátti skilja að það væri jafnvel vilji til að endurskoða lagaumhverfið til að liðka um fyrir bandarísku verslunarkeðjunni. Ég er innilega sammála því að aukin samkeppni er af hinu góða en er það virkilega svo að bandarísk verslunarkeðja þurfi að berja að dyrum til að stjórnvöld taki við sér? Ég veit nefnilega ekki betur en að seljendur sem fyrir eru á markaði hafi lagt fram álíka óskir í gegnum tíðina án þess að hafa haft erindi sem erfiði.

Brynhildur Pétursdóttir.
Brynhildur Pétursdóttir.

Málið snýst að einhverju leyti um tolla og gjöld á innflutt matvæli og leyfi til að flytja inn ferskt kjöt (ath. þeir sem eru á móti slíkum innflutningi tala iðulega um hrátt kjöt). Á Íslandi er tollvernd mikil og mjög líklegt að matvöruverð myndi lækka með afnámi verndartolla. Ef stjórnvöld vilja raunverulega meiri samkeppni þá afnema þau einfaldlega tolla á innfluttum landbúnaðarafurðum. Það er einfalt skref sem hagsmunasamtök neytenda og seljenda hafa kallað eftir um árabil.
Málið snýst líka um þær hömlur sem eru á innflutningi á matvælum frá Bandaríkjunum og snúast að stóru leyti um merkingar. Ísland er hluti af evrópska efnahagssvæðinu og því gilda að mestu sömu lög og reglur um matvæli (t.d. eftirlit og merkingar) hér og í löndum Evrópusambandsins auk Noregs. Greinagóðar merkingar skipta neytendur miklu máli. Við eigum rétt á að vita hvaða innihaldsefni eru í þeim mat sem við kaupum, hvert næringargildið er, hvar matvælin eru framleidd og hversu mikið magn við erum að kaupa svo dæmi séu nefnd. Allt eru þetta sjálfsagðar upplýsingar en við getum ekki treyst því að framleiðendur upplýsi okkur nema þeir séu beinlínis skyldaðir til þess og einmitt þess vegna höfum við sett reglur. Allir sem flytja inn matvæli og selja á Íslandi þurfa að fylgja þessum reglum. Þegar matvörur eru fluttar inn frá Bandaríkjunum eða landa utan EES getur þurft að merkja þær sérstaklega þar sem aðrar reglur gilda í þessum löndum. Ef markmiðið er að auka samkeppni er því væntanlega mun einfaldara að auka innflutning á landbúnaðarafurðum frá Evrópu en það virðist ekki jafn spennandi í augum stjórnvalda.
Það er í sjálfu sér eðlilegt að ráðherra að skoði þær óskir sem Costco setur fram en það er ekki hægt að gefa neinn afslátt þegar kemur að því að upplýsa neytendur og allar hugmyndir um að breyta reglum um merkingar þarf að skoða mjög vandlega. Þá er rétt að ítreka að reglur sem gilda um matvæli eru ekki settar til að klekkja á seljendum heldur til að vernda neytendur.
Hvað varðar sölu á áfengi eða lyfjum í verslunum þá eru bæði kostir og gallar við að auka aðgengi að þessum vörum. Ef reglum verður breytt þá hlýtur það að vera eftir vandlega yfirlegu og vegna þess að við teljum að breytingin þjóni hagsmunum neytenda en ekki til að koma á móts við þarfir einstakra seljenda.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: