- Advertisement -

Skýrt dæmi um spillingu stjórnmálaflokka

Þór Saari skrifar:

Þetta þarf að stöðva.

Eitt skýrasta dæmið um hversu gerspilltir íslenskir stjórnmálaflokkar eru er hvernig þeir moka skattfé borgaranna í eign vasa til að tryggja sjálfum sér endurkjör. Flokkarnir á þingi úthluta sér nærri þremur milljörðum króna á hverju kjörtímabili til að geta innmúrað sig í stjórn landsins áfram, þremur milljörðum, svo það sé endurtekið. Það eru þrjú þúsund milljónir. Auk þess fá formenn stjórnarandstöðuflokkana auka þingfararkaup (laun) fyrir að vera formenn flokkana sinna og eru því á tvöföldum launum, nema Píratar sem hafna þessu launum. Einnig þess fá formenn flokkana persónulega aðstoðarmenn á launum hjá þinginu og þingflokkarnir fá að auki aðstoðarfólk. Þingmenn eru líka á fullum launum í kosningabaráttunni í aðdraganda kosninga þegar þingið er í fríi og allur kostnaður (ferðir og uppihald) er greiddur.

Þetta gerir það að verkum að nýjum framboðum er nánast ómögulegt að keppa við þá í kosningum enda er eins skakkt gefið og hægt er. Auk þess mega þeir taka við framlögum frá lögaðilum (fyrirtækjum) en skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis benti einmitt á það sérstaklega að fjáraustur fyrirtækja til stjórnmálaflokka og til einstakra stjórnmálamanna virtist hafa haft áhrif á afstöðu þeirra í málum tengdum þeim fyrirtækjum.

Þetta þarf að stöðva, enda er það einfaldlega gerspillt stjórnmálastétt sem hagar sér svona.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: