- Advertisement -

Spunameistari missir þráðinn

Útúr öllu þessu kemur hann sjálfur líklega með stærsta spælegg ársins á andlitinu – sem er vitaskuld dapurlegt fyrir okkur sem höfum viljað frama hans á Mogganum sem mestan.

Össur Skarphéðinsson um Stefán Eunar Stefánsson.

Össur Skarphéðinsson skrifaði ljómandi fína grein sem fer hér á eftir:

Þegar atburðarásin í Ráðhúsinu er rýnd utanfrá virðist sem siðfræðingur og sjálfskipaður pôlitískur fréttastjóri Moggans sé miklu afdrifaríkari gerandi hennar en virðist við fyrstu sýn.

Eitt af því sem einkennir Stefan Einar er áköf löngun til að hanna atburðarrásir sem koma andstæðingum Flokksins illa, standa svo upp, bukka sig og taka við áköfum fagnaðarlátum flokksmanna. Þetta hefur gengið svo vel hjá Stefáni Einari að hann var jafnvel orðaður sem næsti formaður Sjálfstæðisflokksins. Því miður varð ekkert af því.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Pólitískir skákmeistarar verða…

Naktast hefur hönnunaráttan komið fram í einelti hans gagnvart Ingu Sæland og Flokki fólksins, enda augljóst að pólitíski fréttastjórinn telur þau veikasta hlekk ríkisstjórnarinnar. Þar birtist einbeittur brotavilji því hann virðist með Flokk fólksins á perunni og ætlar greinilega að naga niður Ingu Sæland – ef ekki með góðu þá illu. Þessvegna vænu dassi af eitruðum skáldskap, ef nauðsyn krefur.

Af sama meiði var gildran, sem hann egndi fyrir borgarstjóra í uppnámi útaf skógarhöggi í Öskjuhlíð. Í Spursmálum þjarmaði hann að þeim góða dreng, og vissi enda sem var, að borgarstjórinn orðar stundum hlutina án þess að ígrunda þá mikið áður. Þar linnti siðfræðingurinn ekki látum fyrr en hann var kominn með hráefni í fyrirsögn: Hriktir í stoðum meirihlutans!

Pólitískir skákmeistarar verða hins vegar að sjá fyrir a.m.k. einn leik til að minnsta von sé um að fléttan gangi upp. Þar virðist Stefán eiga sitthvað ólært. Náðarhöggið greiddi hann svo vesalings borgarstjóranum með uppskáldaðri fyrirsögn sem flennt var yfir forsíðu Moggans: Meirihlutaviðræður!

Þar með var okkar góði borgarstjóri „dead man walking“ og átti enga leið til baka. Siðfræðingurinn sá fyrir sér að Þórdís Lóa, Viðreisn, og Helga Þórðardóttir, Flokki fólksins, kæmu hlaupandi með lafandi tungu til að komast í meirihluta með hans elskaða Sjálfstæðisflokki og tætlunum af Framsókn.

Það var stóra plottið, kokkað á skrifstofu hins sjálfskipaða pólitíska fréttastjóra. Þar átti að slá tvær feitar flugur í einu höggi: Koma Sjálfstæðisflokknum í langþráðan meirihluta í borginni, sem þó var minna mál en hitt, sem fólst í að stía sundur Viðreisn og Samfylkingunni í borginni. Það hefði nefnilega haft langvarandi áhrif á traustið milli sömu flokka í nýstofnaðri ríkisstjórn.

Líklega hefur hann ofmetnast…

En fréttin um „meirihlutaviðræður“ reyndist uppspuni, skáldskapur. Pólitíski fréttastjórinn sem ætlaði einhendis að verða bjargvættur Flokksins (og dreymir eðlilega hverja nótt um ritstjórastólinn) gleymdi nefnilega að útskýra plottið fyrir ræfils borgarstjóranum. Þessvegna kannaðist enginn í Ráðhúsinu – ekki einu sinni Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjallans, við að meirihlutaviðræður Moggans væru hafnar.

Þegar meirihluti fellur skapast yfirleitt tækifæri, jafnvel kjörstaða, fyrir minnihlutann. Stefán Einar hefur hins vegar komið Sjöllum í algera sjálfheldu í borginni og skapað stöðu sem heldur þeim gikkföstum í minnihluta.

Útúr öllu þessu kemur hann sjálfur líklega með stærsta spælegg ársins á andlitinu – sem er vitaskuld dapurlegt fyrir okkur sem höfum viljað frama hans á Mogganum sem mestan. Líklega hefur hann ofmetnast af að rista á hol reynslulitla stjórnmálamenn – þangað til Kristrún Frostadóttir tók hann í kennslustund sem frægt varð.

Þó ber altént að fagna að valdabrölt hans á Mogganum virðist hafa tryggt að Sjálfstæðisflokkurinn verður gikkfastur í minnihluta næstu árin.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: