- Advertisement -

Stefnir í harðar deilur á vinnumarkaði

Vinnumarkaður „Ég held að það sé alveg ljóst að við erum að fara í erfiða kjarasamningalotu í vetur,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulifsins, í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í gær.

Áður hafði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagt á sama vettvangi að tilraunin, um lægri launahækkanir og aukin kaupmátt í framhaldi, hafi mistekist. Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður VM, tók dýpra í árinni, um samræmda launastefnu, og sagði: „Hún er gjörsamlega farin. Það þarf ekki að ræða það meir.“

„Ég held að við verðum að skoða hvaða árangri við höfum náð,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulifsins, og segir að þegar samningarnir voru gerðir hafi verið hér fjögurra prósenta verðbólga, en nú sé hún undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, og að nú sé rétt rúmlega tveggja prósenta verðbólga og að slepptu húsnæðiskostnaði sé verðbólgan rétt um eitt prósent. „Við erum að ná miklum kaupmætti á grundvelli hóflegra kauphækkana.“

Eftir stóru samningana hafa aðrir stéttir, svo sem kennarar og flugliðar, samið um mun meiri hækkanir og jafnvel tífalda hækkun þess sem Alþýðusambandið og fleiri sömdu um. Gylfi segir að tilraunun sem var reynd hafi ekki gengið upp, ekki síst vegna þess að ríkið gekk á undan með meiri hækkunum til annarra, og á þá við framhaldsskólakennara.

Þorsteinn þvertekur fyrir að hafa samið um hærri launahækkanir við aðrar stéttir, það eftir að stóru samningarnir voru gerðir. Þegar bent er á flugáhafnir, sem dæmi, segir hann ekki rétt að laun þeirra hækki meira en annarra, en þar hafi verið samið um miklar breytingar á vinnutilhögun.

En fyrst verkalýðsforystan metur þetta svona, hverjar verða afleiðingarnar, til hvers ætlast þeir sem sömdu um litla hækkun?

„Þegar verður mikil misskipting í launabreytingunni munu þeir sem telja sig hafa setið eftir, þurfa að fara svipaðar leiðir.“ Það er að krefjast leiðréttinga miðað við annað sem hefur gerst.

Guðmundur Ragnarsson reiknar með átökum á vinnumarkaði næsta vetur. „Við hjá VM höfum sagt það skýrt að við tökum ekki þátt í samræmdri launastefnu í næstu kjarasamningum. Við viljum semja við okkar viðsemjendur, í okkar atvinnugreinum til að ná fram ýmsum leiðréttingum. Við ætlum að gera hvað við getum til að þvinga okkar viðsemjendur í vitræna umræðu um aukna framlegð í þeim greinum þar sem okkar félagsmenn starfa.“

„Vinnumarkaðurinn í heild er að þróast í svipuðum takti og samningar okkar við Alþýðusambandið var. Í stóru myndinni hefur samræmda launastefnan alveg gengið eftir. Við getum ekki stýrt stóru myndinni út frá því að hugsanlega hafi fámennir hópar fengið meira.“

Síðar í dag verður framhald þessa máls, og meðal annars verður viðtal við forsætisráðherra um kennarasamninga og ásakanir um að ríkið standi ekki við sitt.

Hér er viðtal við Þorstein Víglundsson frá því gær.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: