- Advertisement -

Steingrímur Njálsson, ég og borgaraleg handtaka

Þá komst friður á á Hótel Búðum og samskipti míns og Steingríms Njálssonar hófust. Þau áttu eftir að draga dilk á eftir sér.

Þegar ég hlustaði á Helga Seljan, í þætti Loga Bergmann, rifjaðist upp fyrir mér alvarlegar og langvarandi hótanir sem ég varð að búa við í áraraðir. Upphafið af því öllu var mjög sérstakt.

Það var annað hvort 1984 eða 1985 sem ég var á bát frá Ólafsvík. Sem svo oft áður. En jæja, ég var tímabundið á verbúðinni. Þar var maður nokkru eldri en ég. Sá vann við steinsögun. Við spjölluðum oft saman. Sem var aldeilis ágætt. Þarna var líka sjómaður sem okkur líkaði ekki við. Hann reyndi að vera með í samtölum okkar hinna. Það gekk illa. Hann var á annarri bylgjulengd.

Svo kom að steinsagarinn var að ljúka sínu verki og bjó sig til að fara heim, til Reykjavíkur. Af því tilefni bauð hann mér að með sér í mat á Hótel Búðum. Ég reddaði leigubíl, hann pantaði borð. Þegar við komum á Hótel Búðir var þar fátt gesta. Nokkrar konur sátu við tvö borð eða þrjú. Kona þjónustaði gestina og önnur kona sá um eldamennskuna.

Allt gekk vel. Við fengum fínasta mat og þetta var allt með ágætum. Þar til að inn kom sambýlingur okkar af verbúðinni. Vel í glasi. Hann byrjaði strax með læti sem uxu stig af stigi. Hann ruddist inn í eldhús og þaðan bárust óhljóð. Konurnar öskruðu og pottar og pönnur skullu á hörðu eldhúsgólfinu. Ég fór fram í eldhús. Þar var nánast neyðarástand. Maðurinn var kolvitlaus og ógnandi.

Ég blandaði mér í málið. Sem endaði með því að ég kom honum út úr húsinu. Lagði hann á grasblett þar sem hann lá á maganum og ég ofan á honum. Studdi hnénu á milli herðablaðanna. Og náði þannig að halda honum. Hringt var á lögregluna í Ólafsvík sem kom og fór með hann.

Þá komst friður á á Hótel Búðum og samskipti míns og Steingríms Njálssonar hófust. Þau áttu eftir að draga dilk á eftir sér.

Ekki meira að sinni. Næst skrifa ég um samskipti okkar eftir að ég varð blaðamaður og síðan um alvarlegar hótanir sem voru þó nokkrar. Sumar ömurlegar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: