Krisrún Frostadóttir forsætisráðherra skrifaði eftirfarandi:
Ég átti tvo frábæra fundi í Brussel í gær. Fyrst hitti ég Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og því næst hélt ég beint á fund António Costa, forseta leiðtogaráðs ESB.
Ný tollastefna Bandaríkjanna var auðvitað áberandi á báðum fundum. Ég kom því skýrt á framfæri hversu miklir hagsmunir eru í húfi fyrir Ísland, leiði tollahækkanir Bandaríkjamanna til þess að ESB grípi til gagnaðgerða. Ísland er mikilvægur hluti af innri markaði Evrópu og það er engum í hag að þar skapist ólga. Ekkert er fast í hendi í þessum efnum enn þá en leiðtogarnir skuldbundu sig til að halda okkur upplýstum um öll möguleg næstu skref ESB í tollaviðbrögðum. Þetta er mikilvæg trygging.
Ég fann líka fyrir miklum skilningi og áhuga á einstakri stöðu Íslands, mitt á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Það var gott að fá staðfestingu á því hversu ríka áherslu leiðtogar ESB leggja á Atlantshafstengslin. Sterkari Evrópa mun styrkja Atlantshafsbandalagið, öll vorum við sammála um það.
…hún er óþægileg.
Óvissan er sannarlega mikil á alþjóðasviðinu – og hún er óþægileg. Hlutirnir hreyfast hratt, eins og við verðum vitni að á nánast hverjum degi. En við verðum að halda ró okkar á sama tíma og við stöndum vaktina fyrir Ísland, heima og erlendis.
Þessi fyrsta heimsókn mín til Brussel skilaði góðum og haldbærum árangri. Ég er nú á heimleið, fer beint á ársfund Seðlabankans síðdegis og verð þar með mitt fyrsta ávarp sem forsætisráðherra. Á morgun hefst svo landsfundur Samfylkingarinnar. Fundurinn verður sögulegur: 25 ára afmælislandsfundur í kjölfar kosningasigurs í fyrra og Samfylkingin leiðir nú ríkisstjórn. Það er því ærið tilefni til að fagna með mínu fólki og ég hlakka mikið til.