„Ég hef starfað með Gunnari Smára á vettvangi sósíalisma og Samstöðvar í nokkur ár og hef orðið vitni að brautryðjandi þreki hans og óþreytandi tilraunum til að dreifa því valdi sem hefur safnast upp í kringum hans störf. Hann hefur sýnt samstarfsfólki sínu mikið traust en gerir líka miklar kröfur, þó ekki eins miklar og hann gerir til sjálfs sín. Það fer enginn út í hugsjónastarf nema af heilum hug, líkama og sál, það vita allir sem reynt hafa. Og það tekur á. En í slíku samstarfi öðlast maður smám saman kjark til að nýta sér tjáningarfrelsið og taka þátt í skörpum skoðanaskiptum. Það hlýtur að vera okkur mikilvægt að geta tekist á og verið ósammála. Bæði Sósíalistaflokkurinn og Samstöðin eiga að mínu viti að vera vettvangur ólíkra sjónarhorna, frjálsra skoðanaskipta. Sósíalisminn eða samfélagshyggjan er persónuleg og pólitísk áskorun. Ekki persónuleg og pólitísk gíslataka eða yfirtaka.“
Oddný Eir Ævarsdóttir skrifaði meðal ananrs þetta um átökin í Sósíalistaflokknum. Sjálfur hef ég ætlað að gera það sama. Gunnar Smári er bróðir minn og ég veit, ég veit hversu lengi hann þáði ekki, eða fékk ekki, laun fyrir brautryðjanda störf sín, fyrir flokkinn og Samstöðina.
Ég held að hvorki væri til flokkur sósíalista né Samstöð hefði Smári ekki rutt brautirnar. Í stað þakklætis er ráðist að persónu hans, hann er meira að segja sakaður um lögbrot ofan á allt hitt.
Það er rétt að það munar um Smára. Hann þarf mikið pláss. Ekki fyrir sig persónulega. Heldur fyrir ungan flokk sósíalista og fyrir Samstöðina og ekki síst fyrir hugsjónir og skoðanir.
Nú er mál að linni.
Sigurjón Magnús Egilsson blaðamaður.