- Advertisement -

Þjóðin bjargi stjórnarsamstarfinu

Viðhorf Ég horfði ekki á Eyjuna í gær. Handboltinn náði huga mínum. Hef ekki nennt að horfa á netinu. Í þættinum mun, samkvæmt fréttum, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagst vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð verðtryggingarinnar. Er þetta ekki djók? Nei, sveimér þá, ég held ekki.

sme llVísir segir að forsætisráðherra hafi  kvaðst sannfærður um að hann fengi stuðning þjóðarinnar við afstöðu sína en eins og kunnugt er hefur Sigmundur talað fyrir afnámi verðtryggingar. Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Og bara alls ekki. Kannski að flokkurinn sættist á færri valkosti verðtryggðra lána, en bann, nei takk.

Á ekki að lesa úr þessu að Sigmundur Davíð telji sig þurfa að skjóta ágreiningi innan eigin ríkisstjórnar til þjóðarinnar?

Þau eru nokkur málin sem ágreiningur er um innan ríkisstjórnar Íslands. Eða kannski er réttara að segja sem Sjálfstæðisflokkurinn stöðvar eða tefur. Húsnæðismálin og stjórn fiskveiða eru þar á meðal. Sigurður Ingi sjávarútvegsráðherra sagðist, í Sprengisandi, ósáttur með að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stöðvað frumvarp hans um fiskveiðarnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Framsókn hefnir sín með athugasemdum. Svo sem að ekki sé rétt að selja Landsbankann núna og að Bjarni formaður Sjálfstæðisflokksins sé í raun umboðslaus að stofna fjárfestingarbanka í Asíu.

Ekki má gleyma að á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins var samþykkt að gera eigi Landsbankans að samfélagsbanka. Það mun Sjálfstæðisflokkurinn aldrei samþykkja.

Vilji forsætisráðherra um að þjóðin leysi úr ágreiningi innan ríkisstjórnar er frumlegur. Þetta er nýtt.

Helgi Hrafn Gunnarsson, kapteinn pírata, skrifar um þetta og segir meðal annars: „Það er því ekki stigsmunur heldur eðlismunur á þjóðaratkvæðagreiðslum að frumkvæði þjóðar annarsvegar og að frumkvæði ráðamanna hinsvegar. Hið fyrra eru lýðræðisumbætur, hið síðara pólitískt vopn handa ráðamönnum. Lýðræðislegir ferlar eru ekki til þess að ráðamenn geti notað þá til að afla sér vinsælda heldur til þess að þjóðin sjálf geti ýmist tekið fyrir hendurnar á Alþingi eða knúið það til að fjalla um tiltekin mál.“

Ég veit það ekki, en mér finnst afar sérstakt að forsætisráðherra þjóðar, skuli skjóta ágreiningi innan eigin ríkisstjórnar til þjóðarinnar í von um að hún leysi innanbúðarvandann á stjórnarheimilinu.

Er þá ekki rétt að spyrja að fleiru. Til dæmis um kvótann, húsnæðismál, kjör aldraðra og öryrkja og fleira og fleira. Búa til spurningarvagn um allt það sem deilt er um innan ríkisstjórnarinnar.

Sigurjón Magnús Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: