- Advertisement -

„Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn“

Ég held að fátt geti stöðvað almenna borgara sem velja að vakna og krefjast réttlætis.

Katrín Oddsdóttir skrifar:

Sumt er þess virði að berjast fyrir í lífinu. Sumt í lífinu er líka nógu mikilvægt til þess að tönnlast sé á því aftur og aftur.

Í okkar baráttu er það eftirfarandi þriggja orða fullyrðing: „Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn“.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er svo óhugnanlega mikilvægur punktur.

Alþingi fer með vald til að setja lög og er því löggjafinn. Að vera löggjafinn er hins vegar að er alls ekki það sama og að vera stjórnarskrárgjafinn, enda gera fræðimenn skýran greinarmun á þessu.

Björg Thorarensen, prófessor og einn helsti sérfræðingur landsins í stjórnskipunarrétti, segir í bók sinni sem kom út árið 2015:

„Hugmyndin um beint lýðræði tengist öðrum undirstöðum stjórnskipunarinnar, einkum sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar. Með því er viðurkennt að þótt stjórnskipunin sé reist á fulltrúalýðræði skuli þjóðin taka beina og milliliðalausa afstöðu til tiltekinna mála, sem lúta að mikilvægum hagsmunum eða um ákveðin mál, svo sem stjórnarskrárbreytingar, enda sé þjóðin sjálf stjórnarskrárgjafinn.“

Þetta er svo óhugnanlega mikilvægur punktur. Sú staðreynd að Alþingi velji að virða ekki niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, um að leggja nýju stjórnarskrána til grundvallar að frumvarpi fyrir stjórnarskrá Íslands, gengur ÞVERT á þessa hugmyndafræði og þar með hugmyndina um að þjóðin sé uppspretta valdsins.

Hér er ógnarfagurt útsaumsverk sem Katrín María Káradóttir gerði. Við í stjórn „Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá“ afhentum Guðna Th. þetta verk sem gjöf á kvenréttindadaginn, 19. júní síðastliðinn. Sama dag settum við á laggirnar undirskriftalistann sem krefst þess að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði virt af Alþingi.

Og nú, rúmum þremur mánuðum seinna hafa vantar okkur bara 265 nöfn til að ná okkar upphaflega takmarki um 25.000 staðfestar undirskriftir.

Það er ekkert minna en STÓRKOSTLEGT. Við munum auðvitað halda áfram og berjast fyrir undirskriftasöfnuninni til síðasta dags sem er 19. október. Daginn eftir stendur svo til að afhenda Alþingi undirskriftirnar á 8 ára afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem var haldin 20. október 2012.

Ég held að fátt geti stöðvað almenna borgara sem velja að vakna og krefjast réttlætis. Ég finn líka svo skýrt þessa dagana að við erum svo mörg loksins að vakna til raunverulegrar vitundar um að VIÐ séum uppspretta valdsins og stjórnarskrárgjafinn í þessu góða landi.

Með öðrum orðum: Þetta mun hafast að lokum.

Hér er listinn: https://listar.island.is/Stydjum/74

Ps. Verum svo extra góð við allar manneskjur í kringum okkur á þessum kófrugluðu tímum sem við lifum á.

#hvar #stjornarskra


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: